Vöðlur í miklu úrvali

Vöðlur þurfa að vera áreiðanlegar, þægilegar og falla að þörfum notandans. Í Veiðiflugum finnur þú mikið úrval af vöðlum, vöðluskóm og vöðlupökkum frá þekktum framleiðendum. Skoðaðu úrvalið hér að neðan.

Vörur við hæfi

Við leggjum mikla áherslu á gæði og endingu, en ekki síður sanngjarna verðlagningu. Hvort sem þú ert að leita að ódýrum vöðlum eða vönduðum vöðlupakka þá finnur þú lausn við hæfi í verslun Veiðiflugna. Á meðal framleiðenda eru Guideline, Patagonia og Korkers. Neðar á þessari síðu má finna gagnlegar upplýsingar sem gott er að hafa í huga við val á vöðlum og vöðluskóm.

Hvernig á að velja vöðlur?

Það skiptir miklu máli að velja vöðlur við hæfi, bæði upp á endingu að gera en ekki síður upp á þægindi. Fjölmargar gerðir og tegundir af vöðlum eru á markaðnum og því oft erfitt að greina hvað hentar hverjum og einum. Þá eru stærðir misjafnar á milli vörumerkja, efni ólík og snið geta verið allavega. Mikilvægt er að hugsa til þess í hvað vöðlurnar skuli notaðar. Ertu eingöngu að veiða í vötnum?, ferðu í litlar silungsveiðiár eða stórar og vatnsmiklar laxveiðiár? Eða ertu eins og flestir, vilt helst vöðlur sem henta í alla almenna veiði?

Hvernig vöðlur eru í boði?

Klofstígvél eru sennilega stystu mögulegu „vöðlur“ sem unnt er að fá, að hefðbundnum stígvélum undanskyldum. Þau samanstanda af tveimur uppháum skálmum sem fest eru í belti eða buxnastreng. Slíkar vöðlur henta ágætlega í stutta veiðitúra, þegar veitt er í grunnum vötnum eða við vatnslitlar silungsveiðiár.

Mittisvöðlur njóta vaxandi vinsælda enda geta slíkar vöðlur verið afar þægilegar þegar ekki þarf að vaða djúpt. Mittisvöðlur ná jafnan ekki ofar en á maga og eru fáanlegar með áföstum stígvélum eða með sokk, til notkunar með hverskonar vöðluskóm.

Uppháar vöðlur er fjölhæfustu vöðlurnar og má nota í alla veiði, bæði í ár og vötn. Þær njóta mestra vinsælda, ná jafnan upp fyrir brjóst og eru fáanlegar með eða án stígvéla. Í vöðlum sem eru svo háar má eðli málsins samkvæmt vaða dýpra en í öðrum. Þegar talað er um vöðlur er yfirleitt verið að vísa til hefðbundinna upphárra vaðla.

Skoða Vöðlur

Hvaða efni eru í boði?

Vöðlur í dag eru ýmist framleiddar úr gúmmíi, neoprene eða næloni. Hvert efni hefur sína kosti og galla svo það er mikilvægt að kynna sér þá áður en nýjar vöðlur eru keyptar. Gúmmívöðlur voru nokkuð vinsælar á árum áður en hafa nú nánast vikið fyrir öðrum tegundum. Gúmmí er þó enn notað í klofstígvél og í vöðlur fyrir yngstu veiðimennina. Þá er efnið mikið notað í vöðluskó enda er það slitsterkt og algjörlega vatnshelt. Helsti kosturinn við gúmmívöðlur er sá að þær eru fremur ódýrar. Ókostirnir eru þó fleiri því gúmmí andar ekki auk þess sem efnið er fremur stíft. Vöðlur úr gúmmí eru þ.a.l. mun óþægilegri en aðrar.

Neoprene-vöðlur þekkja eflaust margir enda var neoprene nær allsráðandi á vöðlumarkaði fyrir ekki svo ýkjalöngu síðan. Vöðlur úr neopreni eru yfirleitt uppháar, þ.e. ná upp fyrir brjóstkassa. Þær geta verið allt að 5 mm að þykkt, fyrst og fremst hannaðar til notkunar í kulda. Þær eru fáanlegar með áföstum stígvélum en einnig með sokk svo unnt sé að nota þær með vöðluskóm. Vöðlur úr neopreni geta verið afar þægilegar og hlýjar enda nýtast þær best þegar kalt er í veðri eða þegar staðið er lengi í köldum stöðuvötnum. Þá má einnig nota þær í skotveiði, s.s. á gæs. Ókosturinn við slíkar vöðlur er þó sá að efnið andar ekki og henta þær því síður til veiða í ám, þegar ganga þarf langt eða þegar veitt er á sólríkum sumardögum.

Nælon

Neoprene

Gúmmí

Öndunarvöðlur

Öndunarvöðlur eru í dag þær langvinsælustu á markaðnum, fáanlegar sem mittisvöðlur og hefðbundnar uppháar. Öndunarvöðlur eru framleiddar úr næloni eða pólýester sem húðað er vatnsheldri filmu. Slíkar vöðlur eru mjög léttar í samanburði við aðrar gerðir, þær má nota í hverskonar aðstæðum og eru flestar fremur þægilegar. Eins og nafnið bendir til anda öndunarvöðlur, þ.e. þær hleypa svita og raka út en utanaðkomandi vatn kemst ekki inn. Þær má nota á heitum sumardögum jafnt sem köldum vordögum, að því gefnu að notaður sé hlýr fatnaður innanundir vöðlurnar. Ókosturinn í samanburði við neoprene og gúmmívöðlur er þó sá að nælon eða pólýester er ekki eins slitsterkt og þolir þannig minna hnjask. Efnið eitt og sér er viðkvæmt fyrir núningi og stungum sérstaklega á álagssvæðum, s.s. á hnjám og í klofi. Sumar vöðlur eru því sérstaklega styrktar á þessum svæðum til að koma í veg fyrir að efni rifni og vöðlurnar þar með leki.

Öndunarvöðlur eru fáanlegar með áföstum stígvélum eða með neoprene-sokk til notkunar með vöðluskóm. Flestir kjósa vöðluskó fram yfir stígvélin því þeir henta betur á löngum veiðidögum þegar gengnar eru langar vegalengdir, jafnvel upp og niður hlíðar og brattlendi. Þá má fá öndunarvöðlur í allskyns útfærslum, s.s. með brjóstvösum undir fluguboxin, með hnjápúðum, D-lykkjum eða rennilás. Rennilásavöðlur eru fyrst og fremst til þæginda, að auðvelda veiðimönnum að fara í og úr vöðlunum. Loks má nefna að nokkrar gerðir öndunarvaðla má nota á hefðbundinn hátt en einnig sem mittisvöðlur. Þá er efri hlutanum smeygt niður sem getur komið sér vel þegar lofthiti er mikill.

Hvaða vöðlur á að velja? – Hversu mörg lög?

Það er tvennt öðru fremur sem skiptir neytendur máli þegar kaupa á vöðlur: hvaða snið hentar notandanum og hve miklum fjármunum skal varið til kaupanna? Í raun má segja að verð á vöðlum sé alla jafna í hlutfalli við þá eiginleika sem vöðlurnar hafa. Þannig eru vöðlur með vatnsheldum rennilásum dýrari en þær sem enga rennilása hafa. Mikilvægasti þátturinn, óháð öðrum eiginleikum, er hversu margra laga vöðlurnar eru, því ending ræðst að miklu leiti af því. Dýrari vöðlur eru jafnan fjögurra eða fimm laga á meðan meðaldýrar vöðlur eru gjarnan þriggja laga. Ódýrustu vöðlurnar á markaðnum eru svo úr tveimur lögum, og má ráða endingu út frá því.

Stærð og snið á vöðlum er ekki síður mikilvægt, því vöðlur sem passa notandanum illa munu endast skemur en ella. Stuttar vöðlur eru þannig líklegri til að leka í klofi en þær sem sitja eðlilega, því veiðimaður þarf að geta beygt sig niður án þess að teygist á saumum. Algengustu mistökin við kaup á vöðlum er að taka þær of langar eða of stuttar, sem iðulega leiðir til þess að saumar gefa sig.

Vöðlupakkar

Hvernig er endingin?

Vöðluending er mjög misjöfn en almennt eru það þrír þættir sem ákvarða endingu, óháð því hver framleiðandinn er. Í fyrsta lagi er það fjöldi laga, þ.e. úr hve mörgum efnislögum vöðlurnar eru framleiddar. Þannig ættu 2ja laga vöðlur að endast skemur en fjögurra laga vöðlur. Að sama skapi má segja að vöðlur sem styrktar eru á álagssvæðum ættu að endast betur en þær sem eru óstyrktar. Í öðru lagi skiptir máli að vöðlurnar passi notandanum, því ef þær eru of litlar eða of stórar munu gefa sig á saumum fyrr en ella. Þriðji þátturinn snýr að notkun, en sá sem ver öllu sumrinu í vöðlum mun að öllum líkindum þurfa nýjar vöðlur oftar en sá sem aðeins fer í þrjár veiðiferðir á ári. Fyrir suma veiðimenn geta vöðlur því enst í mörg ár en aðeins sumarið fyrir aðra.  

Kvenvöðlur og karlavöðlur

Flestar vöðlur á markaðnum eru ætlaðar öllum kynjum (e. unisex), þó sumar henti t.d. konum betur en öðrum. Margir framleiðendur bjóða upp á dömuvöðlur sem jafnan eru með grennra mitti og eru víðari að ofan. Slíkar vöðlur henta þó ekki öllum konum enda gjarnan þröngar yfir mjaðmir. Það er því mikilvægara að finna vöðlur sem passa, frekar en vöðlur sem stimplaðar eru konum eða körlum. Skynsamlegasta leiðin er að máta vöðlur á staðnum, jafnvel frá nokkrum framleiðendum, og finna þannig það snið sem hentar best.

Öndunarvöðlur með kvensniði

Öndunarvöðlur fyrir karla

Hvaða vöðlur eru bestar?

Þessari spurningu er ekki auðsvarað en væntanlega eru bestu vöðlurnar þær sem endast lengst! Vöðluending ræðst m.a. af þeim þáttum sem áður voru taldir. Því má segja að vöðlur sem henta notandanum eru að öllum líkindum þær bestu.

Mikilvægi vöðlubeltis

Vöðlubelti skal alltaf notað þegar vaðið er í öndunarvöðlum. Best er að fara í vöðlurnar, festa axlarbönd og beygja sig svo niður til að lofttæma vöðlurnar, því næst skal herða beltið vel að sér. Vöðlubeltið varnar því að vöðlurnar geti fyllist af vatni þegar vaðið er of djúpt eða þegar veiðimaður fer á flot. Notkun vöðlubeltis skyldu allir veiðimenn tileinka sér.  

Vöðluskór

Vöðluumhirða

Sviti og drulla minnkar vatnsheldni og dregur úr öndunareiginleikum vaðla. Til að auka endingu er mikilvægt að þvo vöðlur reglulega. Það þýðir þó ekki að þær beri að þvo eftir hverja veiðiferð heldur er gott að miða við eitt til tvö skipti á sumri, jafnvel oftar ef notkun er mikil. Mikilvægt er að fylgja þvottaleiðbeiningum sem koma fram innan á vöðlunum. Flestar mega fara í þvottavél en sumar ber að handþvo, þá með volgu vatni og þvottaefni. Þegar vöðlur eru hengdar upp til þerris að þvotti loknum er best að þurrka þær fyrst að innanverðu og snúa þeim síðar við.