Hvaða tilgangi þjóna veiðigleraugu?
Veiðigleraugu eru almennt mikilvægari þáttur stangaveiðinnar en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Þau þjóna veigamiklu öryggishlutverki í tvennum skilningi, þ.e. þau vernda augu veiðimannsins gegn útfjólubláum geislum sólarinnar en einnig gegn utanaðkomandi hlutum. Sólarljós er sem eitur í augu manna, sérstaklega þegar endurkast er mikið. Ekkert í okkar náttúrulega umhverfi endurkastar geislum sólarinnar betur en vatn og liggur því í augum uppi að veiðimenn verða fyrir miklum áhrifum. Þó þau áhrif kunni að vera jákvæð fyrir húðina og sálina, á það ekki við um augun sem hljóta skaða af séu þau óvarin.
Annar öryggisþáttur veiðigleraugna snýr að vernd augnanna gegn höggum. Sá þáttur er sérlega mikilvægur þegar kemur að fluguveiði, enda sveiflast agnið, flugan sem veitt er með, fram hjá veiðimanninum á ógnar hraða. Sjálfsagt þekkja það flestir að hafa einhvertímann fengið fluguna í sig, en það getur hæglega gerst við minnstu kastmistök eða þegar vindhviða feykir línunni. Veiðigleraugun eiga að vernda augun þegar óhöpp verða, en ef fluga lendir á óvörðu auganu þarf vart að fjölyrða um útkomuna. Veiðimenn ættu því ávallt að vera með gleraugu við veiðar, þau sem þola högg og eru búin vandaðri linsu.
Veiðigleraugu eru útbúin svonefndum polaroid linsum, sem gera veiðimönnum kleift að sjá ofan í vatn. Þegar vatnsyfirborðið glampar af völdum sólarljóss er nær ógerningur að sjá undir vatnsyfirborðið. Þó að sólarljós geti vissulega auðveldað veiðimönnum að sjá til botns, getur sólin einnig haft þveröfug áhrif, sérstaklega þegar staðið er í vatni. Veiðigleraugu, sem öll ættu að vera búin polaroid linsum, draga úr því endurkasti sem augun nema. Til einföldunar má segja að veiðigleraugu fjarlægi glampann af yfirborði vatnsins og þannig ná augun að greina það sem liggur undir niðri. Og hver vill ekki sjá fiska sem án veiðigleraugna væru ósýnilegir?