Flugustangir í fjölbreyttu úrvali

Veiðiflugur bjóða upp á veglegt úrval af flugustöngum, bæði í lax- og silungsveiði. Í netversluninni er flugustangir í þremur vöruflokkum: einhendur, switch-stangir og tvíhendur. Þá eru jafn margir flokkar fyrir stangarpakka. Í hverjum vöruflokki er hægt að notað „filtera“ til að leita eftir flugustöng í tiltekinni línuþyngd, lengd eða frá ákveðnum framleiðanda.

Framúrskarandi framleiðendur

Veiðiflugur bjóða flugustangir frá mörgum af fremstu fluguveiðimerkjum heims, s.s. Loop sem íslendingar þekkja vel til, Scott sem er einn virtasti bandaríski framleiðandinn, skandinavísku merkin Guideline og Nám auk CnD, Echo og annarra merkja. Veiðiflugur leggur höfuðáherslu á fluguveiði og býður hverskonar vörur henni tengdri. Hjá fyrirtækinu starfa veiðimenn með víðtæka reynslu af fluguveiði sem aðstoða þig við valið á réttu flugustönginni. Hér neðar á þessari síðu getur þú fræðst um allt tengt flugustöngum.

Þrír flokkar flugustanga

Einhendur

Einhendur draga nafn sitt af því hvernig þær eru notaðar, þ.e. veiðimaður notar aðra höndina við köstin. Einhendur eru jafnan á bilinu 8 til 10 fet að lengd, þó vissulega geti þær bæði verið lengri og styttri. Slíkar stangir er tilvaldar til veiða á laxi og silungi, í litlar og meðalstórar ár og í hverskonar vatnaveiði.

Switch-stangir

Switch-stangir nefnast þær fluguveiðistangir sem hannaðar eru til notkunar með annarri hendinni eða báðum. Köstin má m.ö.o. framkvæma líkt og ef um einhendu væri að ræða, en stöngina má einnig nota líkt og tvíhendu. Lengd switch-stanga er alla jafna frá 10,5 fetum upp í 11,9 fet. Þær veiðistangir henta sérlega vel í laxveiði, þó margar þeirrar séu einnig ákjósanlegar til silungsveiða.

Tvíhendur

Tvíhendur eru fyrst og fremst hannaðar til veiða á stærri fiski, í stórum og meðalstórum ám. Til að kasta tvíhendu er báðum höndum beitt, en unnt er að ná mikilli kastlengd með slíkum stöngum. Tvíhendur eru fáanlegar frá 12 fetum upp í 18 fet að lengd, þó algengustu stærðir á Íslandi séu 12-14 fet.

Flugustangir frá Loop

Hvernig á að velja flugustangir?

Þegar hugað er að kaupum á flugustöng er mikilvægt að spyrja sig hve miklum fjármunum skulið vari til kaupanna. Líkja má vali á flugustöng við val á bíl. Flestir nýir bílar munu koma þér á milli A og B, það gera flestar flugustangir á markaðnum líka. Munurinn á milli bíltegunda, eða stangartegunda, felst því fyrst og fremst í eiginleikunum. Dýrari vara er jafnan framleidd úr vandaðri hráefnum, sem oftast skilar sér í betri vöru og lengri endingu. Þá eykur slík vara upplifun og ánægju notandans. Sumir bílar standa fyrir gæði og gott verð, á meðan aðrir eru tiltölulega dýrir með háa bilanatíðni. Í raun gildir það sama um flugustangir og því ætti ávallt að gera samanburð milli vörumerkja.

Ákvörðun tekin

Þegar búið er að ákvarða hve miklu skal varið til flugustangarkaupa er rétt að spyrja sig að því í hvað stöngin skuli notuð. Ef þú ert að leita af þinni fyrstu stöng þarf hún helst að vera fjölhæf, en um leið henta í þá veiði sem þú stundar mest. Fyrir þá sem stunda að mestu silungsveiði ætti stöng í línuþyngd #5 – #6 að henta vel á meðan stöng í línuþyngd #6 – #8 hentar betur þeim sem veiða hvortveggja lax- og silung.

Lengd flugustanga

Lengd flugustanga er mæld frá skafti að stangartopp og er oftast gefin upp í fetum. Almennt má segja að stutt veiðistöng sé tilvalin í styttri köst, á meðan þær lengri henti betur til langra kasta. Lengd flugustanga ætti að ákvarðast út frá stærð þess vatnasvæðis sem stöngin er notuð við. Stuttar stangir hæfa smærri vatnasvæðum, s.s. litlum stöðuvötnum eða nettum ám, á meðan lengri stangir eru heppilegri fyrir stórar ár.

Stærð bráðarinnar

Þá þarf einnig að huga að stærð þess fisk sem skal veiddur, en lengri stangir eru yfirleitt öflugri en þær styttri og ráða þ.a.l. við sterkari fiska. Almennt má segja að línustjórnun sé auðveldari eftir því sem stöngin er lengri og einfaldara að „menda“ línuna á vatnsyfirborðinu. Hinsvegar dregur úr nákvæmni eftir því stangirnar verða lengri en jafnan er talað um að styttri stangir sé umtalsvert nákvæmari en þær lengri.

Hraði flugustanga

Afl flugustanga ræðst í grunninn af þremur þáttum: Í fyrsta lagi eru stangir með hærri línuþyngd öflugri en þær sem eru í lægri þyngdum. Í öðru lagi skiptir efnisvalið máli því mismunandi efni haga sér á ólíkan hátt. Þannig eru stangir sem gerðar eru úr glertrefjum (e. fiberglass) mun mýkri og almennt aflminni en stangir úr koltrefjum (e. carbon fiber). Þá skiptir hönnun stanganna miklu máli, en stangir geta verið framleiddar mjúkar eða stífar. Þegar talað eru um flugustangir er þær gjarnan sagðar hægar eða hraðar, stífari stangir eru flokkaðar sem hraðar á meðan mýkri stangir eru sagðar hægar.

Hvað þýðir þetta?

Í raun má segja að hraði flugustanga sé mælikvarði á hve fljótt stöngin rétti úr sér eftir að hafa kastað flugulínunni. Hraðar stangir eru fljótar að rétta úr sér og krefjast þess að veiðimaður sé með tiltölulega hraða kastsveiflu. Hægar stangir svigna mun meira og rétta um leið hægar úr sér, sem kallar á hægari köst. Áður fyrr var talað um að hraðar stangir stæðu fyrir afl en þær hægari fyrir fínleika. Í dag er þetta að breytast og hægt að fá gríðaröflugar stangir sem eru meðalhraðar.

Hver er munurinn?

Hraðar og meðalhraðar flugustangir henta betur í miklum vindi en hægar og geta jafnframt kastað lengra. Hraðar stangir taka vel við því afli sem veiðimaður beitir, en til þess að þær virki verður veiðimaður líka að setja töluvert mikið afl í stöngina. Af því má ráða að hröð stöng þreyti veiðimann meira við veiðar heldur en sú sem er meðalhröð, enda þarf veiðimaður ekki að beita eins miklu afli á þá síðarnefndu. Hröð stöng framkallar mikinn línuhraða sem auðveldar að rétta úr taumnum þegar stórum og þungum flugum er kastað.

Loop 7x fluguveiðistangir einhendur og tvíhendur

Kostir og gallar ólíkra stanga

 Hraðar flugustangir (e. fast action)

Kostir:
Þeir sem þurfa stöng til að kasta mjög langt ná því best fram með hraðri stöng.
Hröð stöng getur jafnframt kastað stórum og þungum flugum án erfiðleika og er jafnan góð í vindi.
Gallar:
Hraðar stangir krefjast þess að veiðimaður setji mikið afl í stöngina sem eðli málsins samkvæmt þreytir veiðimann fyrr en hægari stangir.
Stöng sem er hröð hentar verr til veiða með litlum flugum og grönnum taumum. Í slíkum aðstæðum aukast líkur á að taumurinn slitni og flugan rifni úr kjaftviki fisksins. Ástæðan er sú að stöngin svignar lítið og dempar þar af leiðandi lítið stefnubreytingar fisksins.
Tilfinning veiðimanns fyrir fiskinum fer minnkandi eftir því sem flugustangir eru hraðari.
Hraðari stangir eru ónákvæmari en hægari á stuttu færi.

Meðalhraðar flugustangir (e. medium fast action)

Kostir:
Meðalhraðar stangir henta í nær öllum veðuraðstæðum og má því nota í logni sem vindi.
Flestar meðalhraðar stangir má nota til að kasta smáum sem stórum flugum.
Meðalhröð stöng veitir veiðimanni meiri tilfinningu fyrir bráðinni en hröð stöng.
Slíkar stangir þarf ekki að beita eins miklu afli og stangir sem eru mjög hraðar.
Gallar:
Meðalhraðar stangir kasta ekki mjög þungum túpum jafn vel og hraðari stangir.

Hægar flugustangir (e. medium action)

Kostir:
Slíkar stangir eru frábærar í smærri fiska og veita veiðimanni hámarks tilfinningu fyrir bráðinni.
Hægar stangir bjóða upp á afar fínlega framsetningu flugunnar og henta því vel í viðkvæmum aðstæðum.
Bjóða upp á notkun á mjög grönnum taumum og örsmáum flugum.
Gallar:
Hægar stangir ráða illa við stórar og þungar flugur.
Stangir sem eru tiltölulega hægar er erfitt að nota í miklum vindi.
Ef veiðimaður beitir hæga stöng of miklu afli verða köstin léleg.

veiðistangir - maður kastar flugustöng

Umhirða flugustanga

Þrátt fyrir að flugustangir nútímans séu margar hverjar mun öflugri en áður tíðkaðist eru þær enn jafn viðkvæmar fyrir slæmri umhirðu. Hér koma nokkrir punktar sem veiðimenn ættu að tileinka sér í umgengni við flugustangir:

  • Notaðu stangarhaldara
    Mikill fjöldi stanga brotnar í kringum bíla. Ekki setja stöngina saman með því að leggja hana í hurðarföls eða skottlokið – ein vindhviða getur kubbað stöngina í tvennt, já eða þrennt.
  • Ekki henda stönginni frá þér
    Flugustangir eru viðkvæmar fyrir höggum og rispum. Aldrei henda stönginni frá þér á jörðina, ef hún lendir á steini eru miklar líkur á að hún brotni, ef ekki, þá í næstu köstum.
  • Aldrei setja blauta veiðistöng í lokaðan stangarhólk.
    Mikilvægt er að korkur stangarinnar sé algjörlega þurr áður en stöng er sett í stangarhólkinn. Sé það gert eru miklar líkur á að stöngin fari að mygla. Best er að leyfa stönginni að þorna í nokkra daga eftir að heim er komið úr veiðiferð.
  • Þrífðu stöngina
    Ef þú þrífur bílinn reglulega ættir þú einnig að þrífa stöngina reglulega, af sömu ástæðu.
  • Notaðu stangarvax á samskeytin
    Eftir því sem stöngin er notuð meira þeim mun mikilvægara er að bera stangarvax á samskeyti flugustanga. Vaxið dregur úr líkum á að partar festist saman og sér um leið til þess að þeir haldist saman allan veiðitúrinn.
  • Snúðu korkinum upp.
    Ef stöngin á heima í stangarpoka er best að snúa skaftinu öfugt í pokanum til að vernda toppinn sem best.