Flokkur: Fróðleikur

Vorveiðiráð

Vorveiðiráð-vorstemmning

Enn er hálfgerð vetrartíð þótt veiðitímabilið sé hafið samkvæmt almanakinu. Víða um land eru veiðimenn farnir að renna fyrir fisk, einkum urriða, bæði staðbundinn og sjógenginn. Vorveiði er að nokkru leyti frábrugðin þeirri veiði sem við þekkjum á sumrin. Fiskurinn er í litlu æti, loft- og vatnshiti er almennt lágur og náttúran er rétt að vakna til lífsins eftir vetrardvala. En hvernig er best að athafna sig í vorveiði svo bestur árangur náist? Auðvitað er ekki til neitt eitt svar við slíkri spurningu, en hér á eftir verður rennt yfir nokkur atriði sem vonandi koma að gagni.

Að nálgast fisk

Hvort sem veitt er að vori, sumri eða hausti er mikilvægt að nálgast fisk af varkárni, þ.e. að láta sem minnst fyrir sér fara. Vorfiskur getur verið glettilega styggur, sérstaklega þegar vatn er tært og eða þegar heiðskírt er. Þá má halda því fram að fiskur sem liggur í tæru vatni sé mun styggari en sá sem liggur undir skoluðu vatni. Að sama skapi er fiskur á grynnra vatni styggari en sá sem liggur djúpt.

  • Þar sem vatn er tært þarf að nálgast fisk afar rólega.
  • Ekki vaða út sé þess nokkur kostur, sérstaklega í tæru og hægu vatni.
  • Hafa skal í huga hvar sólin er á lofti, gættu þess að hún varpi ekki skugga á veiðistaðinn.
  • Oft getur verið árangursríkt að nálgast fiskinn aftanfrá og veiða andstreymis.
  • Vorfiskur liggur oft á grunnu vatni, nálægt bakka, mun nær en þú heldur.

Mikilvægt er að nálgast veiðistað af varkárni.

Aðstæður eru síbreytilegar á vorin.

Fluguval

Margir halda að vorfiskur taki nánast hvað sem er, en í raun er málið ekki svo einfalt. Vissulega geta komið stundir þar sem veðuraðstæður, litur vatnsins og hitastig fer saman og þá skiptir flugugerðin minna máli en ella. Almennt er unnt að nota stærri flugur að vori en sumri, einkum vegna þess að fæðuframboð er takmarkað. Þegar aðstæður eru ákjósanlegar og hægt er að nálgast fisk án þess hann styggist eru straumflugur eitt skæðasta vopnið. Flugur eins og Black Ghost, Nobbler, Dýrbítur, Golli, Iða og Rektor virka jafnan vel. Hafðu í huga að í nettari ám er heppilegra að nota smærri straumflugur en í þeim stærri.  

Þegar verður er stillt og sólin skín getur reynst erfitt að fá fisk til að taka straumflugur með hefðbundinni aðferð. Það skýrist af því að erfitt er að komast í færi án þess fiskurinn styggist. Þetta á frekar við þegar veitt er í ám en stöðuvötnum. Í þeim aðstæðum er betra að veiða andstreymis, kasta straumflugunni upp í straum og strippa niður hylinn. Vænlegasta aðferðin er þó sennilega sú að kasta púpum andstreymis og láta renna niður hylinn á hraða árinnar. Yfirleitt eru notaðar þungar tungsten-púpur til að flugan komist hratt niður til fisksins. Þá getur borgað sig að nota tökuvara til að ákvarða hvenær skuli brugðið við fiskinum. Púpur á borð við Krókinn, Phesant Tail, Vorpúpuna, Peacock, Holuna, Copper John, Héraeyra og Langskegg eru jafnan skæð vopn.

Black Ghost Olive, Nobbler, Dýrbítur og Rektor.

Púpan Copper John í kjafti silungs.

Veiddu djúpt

Almennt má segja að silungur reyni að lágmarka orkueyðslu við fæðuöflun, þ.e. fiskurinn vill hafa sem minnst fyrir því að éta. Þetta á sérstaklega við um vorfisk, einkum þegar vatns- og lofthiti er lágur. Ef kalt er í veðri er líklegt að fiskur sé ekki reiðubúinn að elta agn yfir langan veg, sérstaklega ekki það agn sem ferðast hratt. Í miklum kulda getur því besta ráðið verið að koma agninu niður til fisksins. Að nota sökkenda eða sökklínur getur skipt sköpum í vorveiði. Þó ber að hafa í huga að ef vatn er tært og veður stillt geta slíkar línur gert meira ógagn en gagn því þær lenda gjarnan harkalega á vatnsfletinum.

Hugaðu að því hvernig unnt er að koma flugunni niður til fisksins án þess að styggja hann. Í sjóbirtingsám sem eru skolaðar virkar jafnan best að veiða djúpt með sökklínum, enda fiskur ekki eins var um sig. Í tærari ám eru sökkendar ekki eins vænlegir til árangurs, þá er betra að nota þungar flugur og langa tauma á flotlínu. Með því að kasta andstreymis þungum flugum, púpum eða straumflugum, kemur þú agninu niður til fisksins og minnkar líkur á því að hann styggist. Notaðu tauma eftir aðstæðum, grennri tauma fyrir viðkvæmari svæði. Prófaðu mismunandi aðferðir, dragðu inn hægt eða hratt, stutt eða langt eða jafnvel slepptu því alveg. Yfirleitt borgar sig þó að hægja á, fiskurinn nennir jafnan ekki að sækja flugu sem dregin er inn á ógnarhraða.

Besti veiðitíminn

Almennt er besti veiðitíminn á vorin um hádegisbil og fram eftir degi. Það skýrist af því að eftir nóttina er gjarnan kalt en með hækkandi sól eykst lofthiti. Varastu því að fara út of snemma, sé það gert er hætta á að fiskurinn sé barinn niður og tökuleysið verði meira en ella. Í vorveiðinni liggur ekkert á, njóttu þess bara að vera í veiði og slappaðu af.

Meðhöndlun á fiski

Vorfiski ber nær undantekningarlaust að sleppa. Slíkur fiskur er jafnan horaður eftir veturinn og telst því vart matfiskur. Gættu þess að fara varlega með fisk sem skal sleppt aftur. Haltu honum eins og kostur er í vatninu og forðastu að drösla honum á land. Gefðu fiskinum tíma til að jafna sig áður en þú sleppir takinu.

Prófaðu þig áfram

Auðvitað er ekkert algilt þegar veiðin er annarsvegar og aðstæður breytilegar dag frá degi. Þeir sem eru duglegir að reyna nýjar aðferðir, hugsa út fyrir kassann, ná yfirleitt betri árangri en þeir sem fastir eru í sama farinu. Þau ráð sem hér hefur verið fjallað um veita þér vonandi nýjar hugmyndir og verða þér hvatning til að fara út að veiða. Mundu bara að klæða þig vel – Góða skemmtun.


HÉR getur fundið lista yfir þau veiðisvæði sem opna í apríl….

Kamasan hnýtingakrókar

Kamasan fluguhnýtingakrókar - yfirlit

Kamasan er einn vandaðasti krókaframleiðandi heims, en vörur fyrirtækisins hafa fyrir löngu sannað gildi sitt. Vörumerkið þekkja flestir enda krókarnir reynst íslenskum veiðimönnum vel í gegnum tíðina. Kamasan framleiðir margar gerðir af veiðikrókum, s.s. túpukróka í nokkrum útfærslum, en einnig mikið úrval fluguhnýtingakróka.

Erfitt getur reynst að finna þann krók sem hentar hverju sinni og því hafa Veiðiflugur nú tekið saman yfirlit, yfir alla hnýtingaöngla frá Kamasan, til að auðvelda fluguhnýturum leitina.  

Kamasan B100 grubber krókur

Heiti: B100 (Trout, Shrimp & Buzzer)
Stærðir: 10-16
Notkun: Til hnýtinga á rækjum eða lirfum. Fáanlegir í bronsi (B100), gulli (B100G) eða silfri (B100N).

Kamasan B-110 grubber krókur

Heiti: B110 (Grubber)
Stærðir: 10-16
Notkun: Samskonar krókur og B100 nema úr sverari og sterkari vír. Ef hnýta á stærð #8 má nota B420 krókinn í staðin.

Heiti: B120 (Wet Fly Supreme)
Stærðir: 8-16
Notkun: Hefðbundinn votfluguöngull, nokkuð styttri en B170 og B175.

Heiti: B130 (Trad Wet Fly)
Stærðir: 8-16
Notkun: Áþekkur B120króknum nema vírinn er heldur sverari og því þyngri.

Heiti: B160 (Trout, Medium, Short Shank)
Stærðir: 6-16
Notkun: Ætlaður til hnýtinga á mýflugum, köngulóm, eða nymfum. Krókurinn er 3X stuttur.

Heiti: B170 (Trout, Medium Traditional)
Stærðir: 2-16
Notkun: Fyrir votflugur og nymfur.  

Heiti: B175 (Trout, Heavy Traditional)
Stærðir: 2-16
Notkun: Fyrir votflugur, nymfur og straumflugur. Þessi öngull er þyngri og sterkari en B170.

Heiti: B180 (Low Water Salmon Single)
Stærðir: 4-12
Notkun: Léttur en sterkur laxaöngull, s.s. til notkunar sem hitch og þá með portlandsbragði.

Heiti: B190 (Deepwater Salmon Single)
Stærðir: 2/0-2
Notkun: Stórar einkrækjur til hnýtinga á lax- eða sjóbirtingsflugum, nokkuð þyngri en B180.

Heiti: B200 (Trout Deepwater Nymph)
Stærðir: 6-16
Notkun: Ætlaður til veiða á stórum silungi, til hnýtinga á straumflugum eða nymfum.

Heiti: B220 (Black Nymph)
Stærðir: 6-14
Notkun: Boginn langur nymfuöngull með svartri keramikáferð.

Heiti: B270 (Trout Double Traditional)
Stærðir: 6-14
Notkun: Silungatvíkrækja fyrir venjulegar vot- eða straumflugur. Má einnig nota sem laxveiðikróka. Einnig fáanlegar í silfri (B270N).

Heiti: B280 (Low Water Salmon Double)
Stærðir: 4-12
Notkun: Létt hefðbundin laxatvíkrækja, svört að lit.

Heiti: B380 (Low Water Salmon Treble)
Stærðir: 4-16
Notkun: Svört laxaþríkrækja.

Heiti: B400 (Trout Emerger Surface Film)
Stærðir: 10-16
Notkun: Fyrir léttklæddar þurrflugur sem mara í hálfu kafi.

Heiti: B401 (Trout Whisker Barb)
Stærðir: 8-20
Notkun: Agnhaldslítill þurrfluguöngull

Heiti: B402 (Trout Barbless )
Stærðir: 14-18
Notkun: Agnhaldslaus þurrfluguöngull

Heiti: B405 (Trout Sub Surface)
Stærðir: 8-20
Notkun: Votfluguöngull, 1X stuttur.

Heiti: B410 (Smuts. Midges)
Stærðir: 12-22
Notkun: Til hnýtinga á mýi og smáum þurrflugum.

Heiti: B420 (Sedges)
Stærðir: 8-16
Notkun: Fyrir vorflugueftirlíkingar og aðrar púpur

Heiti: B440 (Trout Dry Fly Traditional)
Stærðir: 8-20
Notkun: Klassískur þurrfluguöngull, 1X stuttur.

Heiti: B800 (Trout Classic Lure – Extra Long)
Stærðir: 1-14
Notkun: Fyrir tálbeitur, straumflugur og langa nymfur. Krókurinn er 4X langur. Einnig fáanlegir í nokkrum litum í B800C.

Heiti: B810 (Trout Lure Extra Long – Cranked Shank)
Stærðir: 6-14
Notkun: Langur straumfluguöngull sem er beygður þannig að bugurinn geti snúið upp.

Heiti: B820 (Lure Nymph Muddlerk)
Stærðir: 4-12
Notkun: Fyrir straumflugur og ýmsar tálbeitur, 4X langur.

Heiti: B830 (Trout Classic Lure Long)
Stærðir: 2-16
Notkun: Fyrir millistærðir á nymfum, votflugum og dægurflugum (e. May fly). Krókurinn er eins og B800 krókurinn en er 2X langur í stað 4X.

Flugur í fluguboxi - fluguhnýtingar

Fróðleikur um Scott

Samsetning með broddendum 

Scott hefur notað broddendasamsetningar (internal ferrule) fyrir betri stangir sínar 
í rúmlega tuttugu ár. Það tekur lengri tíma að framleiða broddendasamsetningar og nákvæmnin þarf að vera miklu meiri í samanburði við það þegar stangartoppurinn er bara settur upp á stangarendann svo langt sem hann kemst. Kostirnir eru hins vegar ótvíræðir. Stöngin bólgnar ekki út á samsetningunum. Hún mjókkar jafnt fram í endann og samsetningarnar sveigjast eins og stöngin. Þetta sést auðveldlega þegar stangir með þessum mismunandi samsetningum eru bornar saman. Önnur stöngin er stífari í samsetningunum og sveigist ekki jafnt, en Scott stöngin mjókkar jafnt fram og vinnur án þess að brot komi í sveigjanleikann á samsetningunni. 

Stangir með broddendasamsetningu mjókka aflíðandi frá handfangi í stangartopp. Þegar horft er eftir stöngum með hefðbundinni samsetningu annars vegar og 
broddendasamsetningu hins vegar sést þessi munur greinilega. Önnur bólgnar út á samsetningunum. Hin mjókkar fram aflíðandi og það skiptir öllu máli þegar orkan ferðast eftir sönginni. Broddendasamsetningin lætur orkuna streyma eftir stönginni án þess að hún rofni á samsetningunum. 

Þessi munur finnst jafnvel á stöngum í tveimur hlutum þar sem samsetningin er bara ein. Með fjölgun samsetninga, en nú er orðið algengt að stangir séu í fjórum, fimm eða sex hlutum, skiptir samsetningaraðferðin hins vegar mjög miklu máli eins og að líkum lætur. Hér eru yfirburðir Scott ótvíræðir. 

Sveigjumæling 

Annar eiginleiki sem gerir Scott stangirnar sérstakar er hversu nákvæmlega stangarhlutarnir eru valdir saman. Scott er eina fyrirtækið sem er með fullkomið eftirlit með efnisinnihaldi þeirra grafít- og trefjaglersefna sem í stangirnar fara. Aðferðir Scott við sveigjumælingar (flex rating) byggjast á sérþekkingu þeirra við að stilla og velja saman stangarhluta miðað við hlutfallslega þyngd þeirra og stífleika. Sérhver stangarhluti er prófaður og endar og toppar með sömu sveigju valdir saman til að ná fullkomnu jafnvægi. Sveigjumælingin á stóran þátt í því að viðhalda stöðugleika í gæðum og ná fram frábæru jafnvægi í stangirnar. 

Scott stangirnar eru handsmíðaðar. Stangarsmiðurinn leggur upp stangarefnið og mjókkar það fram, en samsetning stanganna og sveigjumælingin tryggja samræmi í gæðum, og sem ekki er minna um vert, skapa stöngunum sérstöðu í því hvernig stöngin vinnur í hendi veiðimannsins. 

Lífstíðarábyrgð 

Scott stangirnar eru seldar með lífstíðarábyrgð. Ef stöngin brotnar, hver svo sem ástæðan er, þá bætir Scott upprunalegum eiganda skaðann. Hægt er að fá toppa á allar stangir með hefðbundnum samsetningum hjá Veiðiflugum, en stangir með broddsamsetningum verður að senda utan. Einungis þarf að greiða sendingarkostnað. Nægir þá að senda út brotið og næsta(u) hluta við brotið, en það er nauðsynlegt til þess að hægt sé að velja stangarhluta í stað þess brotna sem samsvarar fullkomlega næstu hlutum við brotið. Þetta þýðir að stöngin er sem ný þegar brotni hlutinn hefur verið endurnýjaður. Og stöngin leikur í hendi veiðimannsins á ný eins og hún hefur alltaf gert. Margir stangarframleiðendur bjóða lífstíðarábyrgð á stöngum sínum, en einungis Scott getur lofað að stöngin sé jafngóð og ný þótt hún hafi brotnað. 

Scott Fly Rod Company framleiðir um 130 mismunandi gerðir af flugustöngum úr grafíti og trefjagleri. Scott er einnig meðal fárra framleiðenda sem geta enn framleitt „split cane“ stangir úr bambusreyr. Sérhver stöng er ætluð til ákveðinna nota og í vörulista sínum lýsir Scott hvaða stangargerð hæfir best tilteknum aðstæðum. Í vörulistanum eru einnig tíundaðir þeir eiginleikar í hönnun stanganna sem gera stangir þeirra þannig úr garði að unun er að veiða með þeim. 

Það er einkum þrennt sem skapar Scott stöngunum sérstöðu. Í fyrsta lagi hvernig efni þeirra er lagt upp og mjókkað fram í endann. Í öðru lagi eru stangarhlutarnir settir saman þannig að broddendi gengur inní næsta hluta. Þegar stangir eru jafnvel í sex hlutum skiptir miklu máli að sverleiki stangarinnar aukist ekki á samskeytum og vinnslan verði ójöfn.

Sérstakir stillipunktar tryggja að stöngin verði ávallt rétt sett saman. Í þriðja lagi stillir Scott saman sveigjanleika stangarhlutanna miðað við þyngd og sveigjanleika með sérstakri aðferð. Loks má nefna að öllum Scott stöngum fylgir lífstíðarábyrgð til upprunalegs kaupanda. 

Uppbygging stanga 

Jim Bartschi, stangarhönnuður Scott, nýtir margvíslega efni og samsetningar þeirra við gerð stanganna, bæði grafít, trefjagler og önnur efni. Efnið er lagt upp eftir kúnstarinnar reglum með ákveðið markmið og eiginleika í huga. Sumir stangarframleiðendur framleiða allar stangir sínar í tiltekinni vörulínu úr sama efninu. Scott byrjar verkið á þeim eiginleikum sem stöngin á að hafa til að bera og velur efni í hana í samræmi við það. Scott blandar þannig saman grafíti og trefjagleri, svo að dæmi sé tekið, og mjókkar þessi efni fram til þess að ná fram tilteknum eiginleikum í stönginni. Stangargerðir Scott eru þannig hverri annarri ólíkar svo að þær hæfi þeim fiski sem ætlunin er að veiða og þeim aðstæðum sem hann er veiddur við. 


 

Myndband um framleiðsluferli Scott