Flokkur: Veiðifréttir

Veiðitímabilið fer vel af stað

Flott byrjun

Veiði hófst víða í morgun og er óhætt að segja að nýtt veiðitímabil fari nokkuð vel af stað. Eftir kuldakast síðustu viku hafa hitatölur heldur farið upp á við og gert veiðimönnum lífið bærilegra. Við höfum fengið fréttir víða að og má lesa það helsta hér að neðan.

Húseyjarkvísl
Í Skagafirði er nú sunnan andvari, sól og 6°c hiti. Veiðimenn leyfðu hitastiginu að rísa áður en þeir fóru út og hófu leika upp úr kl. 13.  Samkvæmt nýjustu tölum hefur 10 fiskum verið landað á fyrsta klukkutímanum. Mesta veiðin er á neðri svæðunum og stærð fiska á bilinu 55-70 cm, mest geldfiskur. Iða Trailer og Black Ghost hafa skilað allri veiðinni. Lokatölur úr Húseyjarkvísl opnunardaginn eru 16 fiskar.

Óli Angling IQ með fiskúr húseyjarkvísl

Ólafur Rangar Garðarsson með fanta fisk úr Húseyjarkvísl 1. apríl.

Tungufljót
Veiðimenn við Tungufljót í Vestur-Skaftafellssýslu hófu veiðar upp úr klukkan 11 í morgun. Veður var með besta móti, 5°c hiti, léttskýjað og hægur vindur. Á fyrstu tveimur klukkustundunum var 12 fiskum landað og komu þeir allir úr Syðri-Hólma og Flögubakka. Megnið af fiskinum var á bilinu 65-70 cm, þó tveir stærri. Nú í kvöld fengum við fregnir af því að 24 fiskum hafði verið landað, sá stærsti 81 cm. 

Tungufljót sjóbirtingur Addi

Arnbjörn Guðjónsson með flottan geldfisk úr Tungufljóti.

Eyjafjarðará
Í Eyjafjarðará byrjuðu menn um kl. 9 í morgun. Veðrið lék ekki við mannskapinn því hávaðarok var á svæðinu og um 5°c hiti. Við náðum tali af veiðimönnum sem voru á leið í hvíldina og sögðu aðstæður afar erfiðar og veiðin eftir því. Um 10 fiskum var þó landað í morgunsárið, mest 60-70 cm, sá stærsti var rúmir 80 cm.  

Stefán Ákason og Stefán Hrafnsson með flotta fiska úr Eyjafjarðará.

Tungulækur
Eins og í öðrum sjóbirtingsám hófst veiði í Tungulæk við Kirkjubæjarklaustur nú í morgun. Veiðimenn tóku daginn hæfilega snemma og hófu veiðar um kl. 9. Aðstæður eru ágætar, töluverður vindur en hiti um 6°c. Lítið vatn er í læknum og fiskur því bunkaður saman á neðri hluta svæðisins. Um hádegisbil hafði um 25 fiskum verið landað, mest á bilinu 65-75 cm. Stærsti fiskurinn mældist rúmir 90 cm. Alls veiddust 46 sjóbirtingar opnunardaginn i Tungulæk.

Sjóbirtingur úr Holunni í Tungulæk 1. apríl.

Tungufljót sjóbirtingur Syðri Hólmur

Fallegt veður er nú á suðurlandi.

Eldvatn
Veðrið leikur við veiðimenn í Eldvatni enda er þar 12 stiga hiti og hægur vindur. Sól skín í heiði sem eru svo sem ekki ákjósanlegustu aðstæður í sjóbirting. Sex fiskar komu á land í morgunsárið, allt upp í 90 cm. Nokkuð rættist úr veiði seinnipartinn og þegar þetta er skrifað var vitað um 14 fiska á land.

Eldvatn sjóbirtingur

Alexander Stefánsson með geggjaðan fisk úr Eldavatni.

Ytri Rangá
Neðra svæði Ytri Rangár opnaði í morgun og fór veiði rólega af stað. Þó var stærðar fiski landað úr Húsbakka og reyndist hann vera 99. Fiskinn veiddi Skagamaðurinn Jóhannes Guðlaugsson á Silver-Tinsel. Veður er þokkalegt eins og annars staðar á Suðurlandi, hægur andvari og sól með köflum.

Jóhannes Guðlaugsson með tröllið úr Ytri Rangá.

Sog – Ásgarður
Árni Baldursson og félagar opnuðu Ásgarðssvæðið í Soginu um hádegisbil. Hæg vestanátt er á svæðinu, sól og 6°c hiti. Aðstæður eru ekki ákjósanlegar hvað bleikjuna varðar, en Sogið geymir einnig töluvert af urriða, staðbundnum og sjógengnum. Í samtali við Árna var það helst urriðinn sem gaf sig en 6 slíkum var landað fyrir hádegi.

Þingvallavatn
Veiði hófst í Þingvallavatni nú í morgun, um 15 dögum fyrr en venjulega. Ákveðið var að heimila veiði í vatninu 1. apríl þetta árið, veiðimönnum til mikillar ánægju. Á svæðinu er aðstæður hinar bestu, 13°c hiti, hægur vindur og léttskýjað. Stefán Bjarnason ásamt fjölskyldu og vinum opnaði ION-svæðið venju samkvæmt og hafði 21 fiski verið landað um kl. 14, eftir um þriggja klukkustunda veiði. Þá höfðu menn misst töluvert af fiski, marga vel væna. Mesta veiðin er á nettar straumflugur, Langskegg og púpur.

Ion þingvellir

Stefán Bjarnason með flottan fisk úr Þorsteinsvík.

Veiðiflugur færa ykkur nánari fréttir eftir því sem þær berast.

Tunufljót 1. apríl

Sigurður Maracus frá Cus Cus landar fallegum sjóbirtingi nú í morgun.

Veiðitímabilið hafið

Veturinn hefur sannarlega minnt á sig þennan fyrsta dag veiðitímabilsins. Veðurskilyrði í Skaftafellssýslum hafa til að mynda verið afleitar þennan morguninn, frost og 10-18 m/s. Veiðiflugur hafa þó fengið fregnir af þokkalegri veiði, bæði sunnanlands- og norðan.

Í Tungufljóti hófu menn veiðar upp úr kl. 10 í morgun. Alls voru fjórum sjóbirtingum landað fyrir hádegi, en tökur grannar og því sluppu margir fiskar úr klóm veiðimanna. Birtingarnir voru þó vel haldnir, á bilinu 70- 82 cm að stærð.  

Arnbjörn Guðjónsson með laglegan 74. cm hæng í morgunsárið úr Tungufljóti.

Í Húseyjarkvísl hafa aðstæður sömuleiðis verið erfiðar, brunakuldi, norð-vestan og snjókoma. Áin er enn mikið lituð eftir rigningu gærdagsins en veiði þó merkilega góð. Upp úr hádegi höfðu veiðimenn landað yfir 10 fiskum, mest vel höldnum geldfiski, 70-80 cm. Loks fór hann að gefa sig þegar flugan Iða var sett undir, en sú fluga er hreint mögnuð þegar ár eru skolaðar. Klassískt seinniparts bingó var að hefjast þegar við heyrðum í Skagafirði um kl. 15, en þá voru allar stangir með hann á! Uppfært: Alls veiddust 30 sjóbirtingar opnunardaginn í Húseyjarkvísl.

Valgarður Ragnarsson með fallegan gedlfisk úr húseyarkvísl í morgun.

Úr Varmá fengum við þær fregnir að sjóbirtingur hefði kroppast upp í morgun. Mesta veiðin var eins og oft áður úr Stöðvarhyl. Áin fór líkt og aðrar í mikið kakó en er nú að sjatna eftir að rigningunni slotaði og kólna fór í veðri.

Eyjafjarðará tók á móti veiðimönnnum í morgun með snjókomu og brunagaddi, en áin mældist aðeins 1°c. Á svæði 3 mættu grjótharðir veiðimenn í birtingu og lönduðu þeir 6 fiskum fyrir hádegi. Síðustu fregnir af svæði 2 hljóðuðu upp á 4 birtinga en einn hafði bæst við seinnipartinn.

Veiðimenn skulu virða tveggja metra regluna á veiðislóð!

Veiðimenn í opnun Tungulækjar hafa ekki verið að stressa sig og ekkert veitt í morgun, enda veðurskilyrði afar slæm á svæðinu. Menn höfðu þó séð mikið af fiski í gær og því má búast við fantaveiði þegar veðrinu slotar.

Sömu sögu höfum við úr Eldvatni, en þar eru ákaflega erfiðar aðstæður og fiskurinn tregur til töku. Nú seinnipartinn höfðu menn þó landað þó nokkrum fiskum. Uppfært: Samkvæmt óstaðfestum fregnum var 4 fiskum landað úr Eldavatni opnunardaginn.

Veiði gekk ákaflega vel í Litluá i Kelduhverfi 1. apríl. Rétt tæplega 100 fiskar voru færðir til bókar, mest staðbundinn urriði en þó nokkrar bleikjur. 

Fréttin verður uppfærð eftir því sem ný tíðindi berast.

Lognið á undan storminum 1. apríl 2020.

Vorveiði – hvað er í boði?

Vorveiði - sjóbirtingur

Þrátt fyrir erfiðan vetur og mikla óvissutíma er sólin farin að hækka á lofti og vorið á næsta leiti. Eflaust hefur hugur margra veiðimanna reikað á veiðislóð síðustu vikur, enda stutt í að veiðin hefjist, sama hvað öðru líður. Lögum samkvæmt hefst nýtt veiðitímabil 1. apríl ár hvert og opna þá fjölmörg vatnasvæði fyrir veiðimönnum. Hér á eftir er ætlunin að draga saman yfirlit yfir helstu ár og vötn sem heimilt er að veiða í apríl.

Sjóbirtingur

Breiðdalsá

Í Breiðdalsá er nú stunduð vorveiði, en uppistaðan er sjóbleikja og urriði. Hægt að kaupa heila eða hálfa daga, eða 2-3 daga holl, allt eftir óskum veiðimanna og stöðu lausra leyfa. Leyfðar eru 6 stangir um vorið án veiðihúss. Veiðileyfi og aðrar upplýsingar má nálgast á heimasíðu Veiðitorgs.

Eldvatn 

Eldvatn í Meðallandi er falleg sjóbirtingsá sem staðsett er í Skaftafellssýslu skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Sjóbirtingsvon er mikil í Eldvatni en aðeins er þar veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Á svæðinu eru leyfðar 6 stangir sem allar seljast saman í pakka ásamt veiðihúsi. Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðunni Eldvatn í Meðallandi og á vefsvæði Veiða.is

Eyjafjarðará 

Eyjafjarðará við Akureyri er ein af þekktari silungsveiðiám landsins. Í hana gengur mikið magn sjóbleikju og á síðustu árum hefur sjóbirtingsstofn árinnar náð sér á strik. Vorveiði er heimil í Eyjafjarðará frá 1. apríl á neðri svæðum hennar en uppistaða veiðinnar er sjóbirtingur. Heimilt er að veiða á flugu og spún en öllum fiski skal sleppt. Hægt er að kaupa staka daga frá morgni til kvölds en tvær stangir eru leyfðar á hverju svæði. Veiðileyfi má nálgast á heimasíðu Veiðitorgs

Fossálar

Fossálar eru býsna vatnsmikil á sem staðsett er í Skaftárhreppi rétt austan við Kirkjubæjarklaustur. Veitt er á þrjár stangir en áin er leigð í tvo daga í senn ásamt veiðihúsi. Uppistaða veiðinnar er sjóbirtingur og ber veiðimönnum að sleppa öllum veiddum fiski. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Stangaveiðifélags Keflavíkur.

Geirlandsá

Geirlandsá á Síðu er nokkuð löng bergvatnsá við Kirkjubæjarklaustur. Áin er þekkt fyrir fagurt umhverfi og vænan sjóbirtingsstofn, enda skipar hún sér á stall meðal bestu sjóbirtingsáa landsins. Vorveiðin hefst 1. apríl og eru 4 stangir seldar saman. Keyptum veiðileyfum fylgir veiðihús með fjórum tveggja manna herbergjum. Skylt er að sleppa öllum hrygningarfiski en leyfilegt agn er spónn og fluga. Upplýsingar fást hjá leigutaka.

Við Geirlandsá er mikil náttúrufegurð.

Grímsá

Grímsá í Lundareykjadal skipar sér sess á meðal bestu laxveiðiáa landsins. Áin býr einnig að nokkuð sterkum sjóbirtingsstofni og hefur vorveiði verið leyfð í ánni undanfarin ár. Grímsá er í um 70 km. fjarlægð frá Reykjavík og því tiltölulega stutt frá höfuðborgarsvæðinu. Veitt er á tvær stangir í Grímsá sem seljast saman án gistingar. Aðeins fluga er leyfileg og skal öllum fiski skal undantekningarlaust sleppt aftur. Nánari upplýsingar og veiðileyfi fást hjá Hreggnasa

Hólsá

Neðsti hluti Eystri Rangár og ármót hennar við Ytri Rangá nefnast Hólsá allt niður að sjó. Við austurbakka Hólsár er stunduð vorveiði í apríl en uppistaða veiðinnar er sjóbirtingur og staðbundinn urriði. Leyfilegt agn er fluga og spúnn og skal öllum fiski sleppt. Veitt er á fjórar stangir en gisting er ekki innifalin í seldum leyfum. Upplýsingar má finna hjá IO veiðileyfum.

Húseyjarkvísl

Húseyjarkvísl í Skagafirði er ein gjöfulasta sjóbirtingsá landsins. Áin er spölkorn frá Varmahlíð og fellur í Héraðsvötn sunnan Sauðárkróks. Vorveiði er leyfð á silungasvæði árinnar frá 1. apríl. Veitt er á þrjár stangir og skal öllum fiski sleppt. Gott veiðihús fylgir keyptum veiðileyfum. Nánari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu Húseyjarkvíslar.

Húseyjarkvísl er þekkt fyrir stóran sjóbirtingsstofn.

Laxá í Kjós

Laxá í Kjós rennur í Hvalfjörð og er fyrst og fremst þekkt sem laxveiðiá, þó í hana gangi einnig mikið af sjóbirtingi. Hófleg vorveiði hefur verið stunduð í neðri hluta árinnar en aðeins er veitt á fjórar stangir. Eingöngu er leyfð fluguveiði og skal öllum fiski sleppt. Nánari upplýsingar fást á leigutaka árinnar, Hreggnasa.
 

Leirá

Leirá í Leirársveit er lítil og nett veiðiá sem er aðeins í um 35 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. Vorveiði er stunduð í Leirá í apríl og er þar ágæt sjóbirtingsvon. Veitt er á tvær stangir sem seljast saman ásamt veiðihúsi. Aðeins er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Veiðileyfi og aðrar upplýsingar má finna á heimasíðu IO veiðieyfa.

Leirvogsá

Leirvogsá rennur í Mosfellssveit við Mosfellsbæ og er aðallega þekkt sem laxveiðiá. Í ánni veiðist einnig sjóbirtingur sem heimilt er að veiða á neðri svæðum árinnar á vorin. Tvær flugustangir eru leyfðar á svæðinu og seljast þær saman í einn dag í senn án veiðihúss frá 1. apríl. Veiðisvæðið nær frá Helguhyl niður að ós. Skylt er að sleppa öllum veiddum fiski. Nánari upplýsingar og veiðileyfi má nálgast á skrifstofu SVFR eða síma 568 6050. 

Litlaá í Kelduhverfi

Litlaá í Kelduhverfi er falleg bergvatnsá staðsett skammt frá Ásbyrgi, rúma 50 km frá Húsavík. Áin er sérstök fyrir þær sakir að meðalhiti hennar er afar hár og vaxtahraði fiska því mikill. Vorveiði í Litluá hefst 1. apríl og eru 5 stangir leyfðar auk tveggja stanga í Skjálftavatni. Aðeins er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Uppistaða veiðinnar er sjóbirtingur og staðbundinn urriði. Nánari upplýsingar fást á heimasíðu leigutaka.

Steinsmýrarvötn

Steinsmýrarvötn eru skammt frá Kirkjubæjarklaustri og samanstanda af tveimur vötnum auk lækja sem úr þeim renna. Á svæðinu fást allar gerðir silungs en uppistaða veiðinnar á vorin er sjóbirtingur og staðbundinn urriði. Veitt er á fjórar stangir sem leigjast allar út saman án veiðihúss. Heimilt er að nota blandað agn en kvóti miðast við 1 fisk, eftir það skal öllum fiski sleppt. Nánari upplýsingar má finna HÉR.

Tungufljót í Skaftártungu

Tungufljót í Vestur-Skaftafellssýslu, milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs, er ein af þekktari sjóbirtingsám landsins. Fljótið á upptök sín á hálendinu ofan við Skaftártungu og telst til bergvatnsáa, en það sameinast Ása-Eldvatni við veiðistaðinn Syðri-Hólma og renna árnar saman í Kúðafljót. Veiði í Tungufljóti hefst 1. apríl og er uppistaða veiðinnar sjóbirtingur, en 4 stangir eru leyfðar á svæðinu sem seljast saman. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt undantekningarlaust. Keyptum veiðileyfum fylgir veiðihús með gistirými fyrir 8 manns. Fish Partner er nýr leigutaki Tungufljóts en laus veiðileyfi og aðrar upplýsingar má nálgast á heimasíðu félagsins

Syðri Hólmi, við ármót Tungufljóts og Ása-Eldvatns.

Tungulækur geymir mikið af sjóbirtingi.


Tungulækur

Tungulækur er ein gjöfulasta sjóbirtingsá landsins og þó víðar væri leitað, en þar er veitt á 3 stangir. Tungulækur er tiltölulega lítil og nett á sem rennur í Skaftá rétt sunnan Kirkjubæjarklausturs. Eingöngu er veitt á flugu og skylt er að sleppa öllum fiski. Veiðileyfum fylgir nýtt stórglæsilegt veiðihús með þremur rúmgóðum herbergjum. Veiði hefst í Tungulæk 1. apríl en nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu Tungulækjar eða á heimasíðu leigutaka.

Vatnamótin

Vatnamótin eru líkt og margar sjóbirtingsár staðsett í nágrenni Kirkjubæjarklausturs, í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta svæði eru nokkuð víðfeðmt en á því koma saman nokkrar ár sem svo sameinast í Skaftá. Svæðið er nokkuð kvikt og breytir sér reglulega, þar er sjóbirtingsvon mikil en veitt á 5 stangir. Vatnamótin eru leigð út í tvo daga í senn og þar er blandað agn leyfilegt. Svæðinu fylgir gisting að Hörgslandi. Hægt er að nálgast veiðileyfi HÉR

 

Varmá

Varmá er lítil veiðiá sem rennur um Hveragerði í aðeins um 30 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. Áin sameinast Sandá og nefnist þá Þorleifslækur uns hann rennur í Ölfusá. Varmá geymir allar tegundir íslenskra ferskvatnsfiska en uppistaða veiðinnar á vorin er sjóbirtingur og bleikja. Veiði hefst ár hvert 1. apríl, eingöngu er leyfð fluga og skal öllum fiski að voru sleppt aftur. Engin gisting fylgir keyptum leyfum en lítið veiðihús er staðsett ofan við þjóðvegsbrú. Nánari upplýsingar og veiðileyfi má nálgast hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur sem er leigutaki árinnar.

 

Varmá er lítil en skemmtileg veiðiá.

Í Ytri Rangá er töluvert af urriða, staðbundnum og sjógengnum.


Ytri Rangá – neðri hluti

Ytri Rangá er í dag fyrst og fremst þekkt sem laxveiðiá. Hún býr þó að góðum sjóbirtingsstofni en að auki leynast þar staðbundnir urriðar. Í apríl er áin veidd með 6 stöngum sem fáanlegar eru stakar eða saman í pakka. Verði er stillt í hóf en stangardagurinn er á 10.000 kr. án gistingar. Ársvæðið nær frá Æðarfossum til og með Djúpós. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt aftur. Nánari upplýsingar fást hjá Jóhannesi í síma 696 7030 eða í gegnum netfangið johannes@westranga.is.

Ölfusárós

Um Ölfusárós gengur allur fiskur sem fer upp í Ölfusá, Stóru Laxá, Sogið, Brúará, Hvítá og Tungufljót í Biskupstungum.  Meginstraumur árinnar liggur við austurlandið geta veiðimenn átt von á að lax, sjóbleikja, sjóbirtingur og jafnvel sjávarfiskar bíti á. Algengast er þó að veiða sjóbirting á vorin. Blandað agn er leyfilegt í ósnum en heimilt er að veiða á 10 stangir. Upplýsingar má nálgast HÉR.

 

 

Staðbundin bleikja og urriði

Brunná í Öxarfirði

Veiðisvæði Brunnár í Öxarfirði samanstendur af Gilsbakkaá, Tunguá og Smjörhólsá. Svæðið er skammt frá Ásbyrgi, í rúmlega 60 km. fjarlægð frá Húsavík. Seldir eru stakir dagar án veiðihúss en þar er veitt á tvær stangir. Á vorin veiðist töluvert af staðbundnum urriða og bleikju á svæðinu. Aðeins er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Veiðileyfi og upplýsingar má nálgast á vefnum Veida.is og á heimasíðu Veiðitorgs.

Brúará

Brúará er önnur vatnsmesta bergvatnsá landsins á eftir Soginu. Hún staðsett á suðurlandi, skammt frá Skálholti, rétt austan Laugarvatns. Brúará er þekkt fyrir góða silungsveiði en bleikja veiðist í töluverðu magni á vorin. Veiðisvæðið skiptist í austur og vesturbakka, fyrir landi Sels og Spóastaða. Blandað agn er leyfilegt í Brúará og er unnt að kaupa stakar dagstangir án veiðihúss. Veiðileyfi fyrir landi Spóastaða má nálgast HÉR, en leyfi fyrir landi Sels eru fáanleg HÉR.

Brúará er þekkt fyrir góða bleikjuveiði.


Galtalækur

Galtalækur er lítil og nett silungsveiðiá staðsett á Suðurlandi. Lækurinn á upptök sín skammt frá Heklu og rennur í Ytri Rangá. Í Galtalæk veiðast mjög stórir staðbundnir urriðar en svæðið er viðkvæmt og krefst mikillar gætni veiðimanna. Seldar eru tvær stangir saman án veiðihúss til eins dags í senn. Aðeins er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Frekari upplýsingar og veiðileyfi fást hjá Veida.is.

Hólaá

Hólaá er um 7 km. löng silungsveiðiá sem rennur úr Laugarvatni í Apavatn. Uppistaða veiðinnar er falleg bleikja en einnig veiðist þó nokkuð af urriða. Veiði hefst 1. apríl og er blandað agn er leyfilegt á svæðinu sem skiptist í nokkur svæði. Veiðileyfi við Austurey og Laugardalshóla má finna HÉR, en einnig hefur verið hægt að kaup leyfi á bænum Útey sunnan Laugarvatns.

 

Laxá í Aðaldal

Þótt Lax-á í Aðaldal sé einkum þekkt fyrir stóra laxa er í henni mikið magn af silungi. Þar veiðist einkum staðbundinn urriði sem getur orðið rígvænn. Hægt er að kaupa veiðileyfi á nokkrum svæðum í ánni.

Árbót
Veiðisvæði Árbótar í Laxá í Aðaldal er fornfrægt stórlaxasvæði. Þar er þó einnig stunduð silungsveiði á vorin, með möguleika á skemmtilegu veiðihúsi. Um að ræða austurbakka Laxár, á milli Nes- og Laxamýrarsvæðanna. Veiðileyfi eru aðgengileg á heimasíðu Veiðitorgs sem nálgast má HÉR.

Syðra fjall
Syðra Fjall er vesturbakki neðsta hluta urriðasvæðanna neðan virkjunar í Laxá í Aðaldal.  Mjög skemmtilegt fjölskyldusvæði með mikilli náttúrufegurð og hreint frábært þurrflugusvæði þegar veður leyfir. Ekkert veiðihús er á svæðinu en veiðimönnum er bent á gistingu í nærliggjandi gistihúsum. Frekari upplýsingar og veiðileyfi má nálgast HÉR.

Presthvammur
Presthvammur er austurbakki efsta hluta urriðasvæðanna neðan virkjunar í Laxá í Aðaldal. Gisting í kofa með rennandi vatni og salerni er innifalin. Í kofanum eru áhöld þess að hita og neyta matar. Þar eru tvö rúm og hægt er að tjalda eða setja upp tjaldvagn innan girðingar við veiðikofann. Hægt er að kaupa veiðileyfi HÉR.

 

Lónsá

Lónsá er lítil veiðiperla á Langanesi. Lónsá er í um 5 mínútna fjarlægð frá Þórshöfn og rennur áin í sjó stutt frá bænum Ytra Lóni. Áin hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir góða sjóbleikju veiði en bæði sjóbirtingur og staðbundin urriði hefur aukist mikið síðustu ár. Á fyrri helmingi tímabilsins í apríl, maí er aðallega veiði á ósasvæðinu og í Sauðaneslóni ásamt staðbundinum urriða ofar í ánni. Helstu upplýsingar og veiðileyfi má fá á Veiðitorg.is.

Minnivallalækur

Minnivallalækur er þekktur fyrir stóra staðbundna urriða og krefjandi veiði. Lækurinn er staðsettur í Landssveit í rúmlega 100 km. fjarlægð frá Reykjavík, skammt frá Heklu. Leyfðar eru 4 stangir á svæðinu sem seljast saman ásamt veiðihúsi í tvo til þrjá daga í senn. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Nánari upplýsingar og veiðileyfi má finna á HÉR.

Stórir urriðar leynast í Minnivallalæk.


Mýrarkvísl

Mýrarkvísl er hliðará Laxár í Aðaldal sem rennur í Skjálfandaflóa skammt frá Húsavík. Áin er þekkt sem laxveiðiá en í henni veiðist einnig mikið af staðbundnum urriða. Í Mýrarkvísl er leyfðar 4 stangir sem hægt er að kaupa stakar í einn eða fleiri daga. Aðeins er veitt á flugu og ber veiðimönnum að sleppa öllum fiski. Veiðimenn eiga kost á gistingu í veiðihúsi kjósi þeir svo. Upplýsingar og veiðileyfi má nálgast á Veiða.is og á Veiðitorg.is.

Sog – Ásgarður

Sogið er vatnsmesta bergvatnsá landsins og fellur úr Þingvallavatni í Hvítá. Á vorin er leyfð silungsveiði í Soginu, m.a. á Hólmasvæðinu við Ásgarð. Veiðisvæðið nær frá Álftavatni að veiðimörkum Ásgarðs og Syðri Brúar. Leyfðar eru 4 dagstangir sem seldar eru tvær saman pakka. Leyft er að nota flugu og spún og skal öllum fiski sleppt. Á þessum árstíma er fyrst og fremst egnt fyrir bleikju sem getur orðið rígvæn. Upplýsingar og leyfi fást hjá Lax-á.

Ytri Rangá – efri hluti

Til efri hluta Ytri Rangár telst svæðið ofan Árbæjarfoss upp að rótum Heklu. Veiði er stunduð á svæðinu í apríl og er uppistaða veiðinnar vænn staðbundinn urriði. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt aftur. Svæðið er verulega stórt og rúmar því auðveldlega þær 6 stangir sem leyfðar eru. Hægt er að kaupa staka daga og stakar stangir. Verð á stöng er 8.000 kr., en frekari upplýsingar veitir Jóhannes í síma 696 7030 eða á johannes@westranga.is.

Umhverfi Ytri Rangár er víða fallegt.


Þingvallavatn

Í Þingvallavatni eru fjölmörg gjöful veiðisvæði og er vorveiði í vatninu afar eftirsótt. Í apríl eru veiðimenn einkum á eftir hinum víðfræga Þingvallaurriða sem getur orðið gríðarstór. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt aftur.

ION-svæðið
Til ION-svæðisins teljast í raun tvö veiðisvæði, þ.e. Þorsteinsvík og Ölfusvatnsós. Þessi svæði þykja með þeim allra bestu í Þingvallavatn enda safnast þar saman mikið af fiski. Í Þorsteinsvík eru heitar uppsprettur en þar er veitt af nokkuð langri sandströnd. Nokkru austar er Ölfusvatnsósinn þar sem áin mætir Þingvallavatni en við ósinn getur legið ótrúlegt magn af urriða. Veitt er á 2 stangir á hvoru veiðisvæði en ION-svæðið er selt sem ein heild frá 20. apríl. Upplýsingar og veiðileyfi má nálgast í gengnum Facebook-síðuna ION Fishing

Fish Partner
Veiðifélagið Fish Partner hefur á að skipa nokkrum veiðisvæðum við Þingvallavatn sem mörg hver þykja afbragðs veiðilendur. Veiði er heimil frá 20. apríl og stakar stangir fáanlegar frá morgni til kvölds. Á meðal veiðisvæða eru Kárastaðir, Svörtuklettar, Villingavatnsárós og Kaldárhöfði. Upplýsingar um veiðisvæðin og veiðileyfi má nálgast á heimasíðu félagsins.

Langavatn

Langavatn er í Reykjahverfi á milli Mývatns og Húsavíkur.  Í vatninu eru bæði urriði og bleikja. Langavatn er hluti af hinu víðfeðma vatnakerfi Laxár í Aðaldal.  Úr vatninu rennur Mýrarkvísl niður í Laxá og þaðan til sjávar.  Í vatnið fellur svo Geitafellsá, en hún á svo upptök upptök sín í Kringluvatni. Allt löglegt agn er leyft en leyfi eru án veiðihúss. Athugið að Langavatn fylgir ekki veiðikortinu. Upplýsingar og veiðileyfi fást HÉR.

 

Vatnaveiði - Veiðikortið

Baulárvallavatn er á Snæfellsnesi

Veiði í Baulárvallavatni hefst 1. apríl, eða þegar ísa leysir. Vatnið er um 160 km. frá Reykjavík, um 15 km. í suður frá bæði Grundarfirði og Stykkishólmi, á leið frá Vegamótum í norður. Urriðaveiði er góð í vatninu.  Meðalþyngd fiska er 2-3 pund, en algengt er að þar veiðist stærri fiskar á bilinu 5-6 pund. Nánar HÉR.

Gíslholtsvatn

Gíslholtsvatn er í Holtahreppi í Rangárþingi í um 85 km fjarlægð frá Reykjavík. Tvö vötn eru á svæðinu, Eystra og Vestra- Gíslholtsvatn.  Handhafar Veiðikortsins mega aðeins veiða í eystra vatninu að vestanverðu, þ.e. í landi Gíslholts. Staðbundin bleikja og urriði veiðist, en bleikjan er nokkuð smá en urriðinn getur verið vel vænn. Veiði er heimil þegar ísa leysir. Nánar HÉR.

Hraunsfjarðarvatn

Hraunsfjarðarvatn er á Snæfellsnesi rétt við Baulárvallavatn í um 200 km. frá Reykjavík, um 15 km. í suður frá bæði Grundarfirði og Stykkishólmi, á leið frá Vegamótum í norður. Jafnan er veiði góð í vatninu. Einungis veiðist þar urriði sem gjarnan er vænn. Meðalþyngd fiska er 2-3 pund, en algengt er að þar veiðist stærri fiskar, 5-6 pund. Veiðitímabil hefst þegar ísa leysir. Nánar HÉR.

Hraunsfjörður

Hraunsfjörður er á norðanverðu Snæfellsnesi, mitt á milli Stykkishólms og Grundarfjarðar. Svæðið er afburðarskemmtilegt en um er að ræða lón fyrir innan stíflu við Hraunsfjörð. Svæðið er víðáttumikið og þar er mikið af fiski, aðallega bleikju. Veiði er heimil frá 1. apríl. Nánar HÉR.

Kleifarvatn

Kleifarvatn er á Reykjanesskaga, staðsett á milli Sveifluhálsar og Vatnshlíðar. Kleifarvatn er eitt af stærstu vötnum landsins, um 8 km2 að stærð og í 136 metra hæð yfir sjávarmáli. Vatnið er frægt fyrir stórfiska og sýna mælingar að mikið er af fiski í vatninu. Í vatninu er bæði bleikja og urriði en tímabilið hefst 15. apríl. Nánar HÉR.

Meðalfellsvatn

Meðalfellsvatn er í Kjósarhreppi í Hvalfirði. Vatnið er um 2 km2 að stærð og um 18 metra djúpt þar sem það er dýpst. Vatnið stendur í 46 metra hæð yfir sjávarmáli.  Í vatnið renna Sandsá og Flekkudalsá en úr því fellur Bugða sem rennur í Laxá í Kjós. Mest veiðist af smábleikju en einnig nokkur urriða sem gefur sig best á vorin. Veiði í Meðalfellsvatni hefst 19. apríl. Nánar HÉR.

Sauðlauksdalsvatn

Sauðlauksdalsvatn er í Vestur-Barðastrandasýslu á Vestfjörðum, í nágrenni Patreksfjarðar. Í vatninu er bleikja, bæði sjógengin og staðbundin. Einnig er vænan urriða að finna í vatninu og hafa menn verið að veiða allt að 16 punda stykki.  Uppistaðan í bleikjuveiðinni er 1-1,5 pund að þyngd. Veiði er heimil í Sauðlauksdalsvatni eftir að ísa leysir. Nánar HÉR.

Syðridalsvatn

Syðridalsvatn er í Bolungavík við Ísafjarðardjúp. Veiði er heimil í öllu vatninu og meðfylgjandi not eru af nærliggjandi ám, Gilsá og Tröllá. Í vatninu veiðist staðbundin bleikja, sjóbleikja og sjóbirtingur. Veiði er heimil frá 1.apríl. Nánar HÉR.

Urriðavatn

Urriðavatn er í nágrenni Egilsstaða. Veiða má í öllu vatninu. Helstu veiðistaðir eru við ósa Hafralækjar og Urriðavatnslækjar, en einnig við hitaveitutanka og víðar. Í vatninu er eingöngu bleikju að finna. Uppistaðan er 1 punda bleikja, en þó slæðast með stærri fiskar. Leyfilegt er að veiða frá morgni til kvölds allt árið um kring. Nánar HÉR.

Þingvallavatn

Þingvallavatn í Þingvallasveit er eitt gjöfulasta vatn landsins. Í vatninu eru 4 tegundir af bleikju sem og víðfrægur urriðastofn. Algeng stærð á bleikjunni er frá hálfu pundi upp í 4 pund.  Bleikjutegundirnar eru: Kuðungableikja, sílableikja, murta og gjámurta. Í upphafi veiðitímabilsins er það fyrst og fremst urriðinn sem gefur sig. Fluguveiðitímabilið hefst 20. apríl og stendur til 31. maí. Þá má einungis veiða á flugu og öllum urriða skal sleppt. Nánar HÉR.

Vífilstaðarvatn

Vífilsstaðavatn er í Garðabæ, austan við Vífilsstaði. Í vatninu fæst einkum urriði og bleikja. Mest er um smábleikju, en einnig veiðist töluvert af stærri fiski, yfirleitt 1-2 pund. Fiskurinn úr vatninu er mjög góður matfiskur. Veiðitímabilið hefst 1. apríl. Nánar HÉR.

Þveit

Þveit er í Nesjahreppi í Austur-Skaftafellssýslu. Þveit er í um 450 km. fjarlægð frá Reykjavík og um 10 km. frá Höfn í Hornafirði. Í vatninu finnst bleikja, urriði, sjóbirtingur og sjóbleikja. Veiðitímabil hefst 1. apríl. Nánar HÉR.

Hlíðarvatn í Hnappadal

Hlíðarvatn er í Kolbeinsstaðahreppi og er við Heydalsveg nr. 55. Hlíðarvatn í Hnappadal er gjöfult og vinsælt veiðivatn. Sérkenni vatnsins eru að vatnshæð breytist mikið yfir sumarið og veiðistaðir í hrauninu breytast því talsvert milli mánaða. Í vatninu veiðast bæði bleikja og urriði, jafnt litlir og stórir fiskar. Heimilt er að veiða í Hlíðarvatni allt árið um kring. Nánar HÉR.

Starfsfólk Veiðiflugna hefur reynslu af veiði í vel flestum ofantalinna vatnasvæða og er fúst að aðstoða með val á veiðileyfum sé þess óskað. Ekki hika við að hafa samband við okkur í gengum Facebook, Instagram, í síma 527 1060 eða á netfanginu veidiflugur@veidiflugur.is.

Athugið að listi þessi er ekki tæmandi. Ábendingar um önnur veiðisvæði eða aðrar upplýsingar má senda á info@veidiflugur.is.

Himnarnir opnast

Horft niður Hvítstaðahylji í Langá í morgunsárið.

 

Eftir eitt mesta þurrkasumar fyrr og síðar er nú loksins farið að rigna. Laxeiðin hefur gengið afleitlega á vesturhelmingi landsins það sem af er, en nú er spurning hvort það rætist úr veiði. Í það minnsta ætti að koma betur í ljós hvað raunverulega er af fiski í ánum.

Við heyrðum í veiðimönnum sem eru við veiðar í Norðurá. Þar hefur ástandið kollvarpast á örskömmum tíma, en áin fór á síðasta sólahring úr tæpum 5 m3/s í um 60 m3/s. Frá júníbyrjun hefur Norðurá vart komist upp fyrir 3 rúmmetra svo breytingin er gríðarleg. Áin er nú farin að sjatna og verður forvitnilegt að fylgjast með aflabrögðum næstu daga. Hver veit nema heildarveiði Norðurár muni tvöfaldast á þeim tíma sem eftir lifir sumars. Heildarveiðin stendur nú í 370 löxum.

Laxfoss í Norðurá nú í morgun. 
Bryggjur og Laxfoss um miðjan júní.

Veiðimenn sem hófu veiðar í Laxá í Dölum í gær komu að ánni mjög lítilli. Sömu sögu er að segja þar, miklir vatnavextir með tilheyrandi slýreki og lit. Strax í morgun fengum við fregnir af lönduðum löxum, þeirra á meðal lúsugir fiskar. Það veit sannarlega á gott með lokasprettinn i Dölunum, en nú er um mánuður eftir af tímabilinu. Laxá í Dölum er dæmigerð síðsumarsá og á því mikið inni. Úr Haukadalsá fengum við sambærileg tíðindi, en rennsli árinnar er skv. mælum komið í 11 m3/s.

 

Langá á Mýrum óx mikið í nótt og er hún samkvæmt veiðimönnum í algjöru gullvatni. Áin hefur eins og aðrar ár á vesturlandi liðið fyrir vatnsskort í allt sumar. Gera má ráð fyrir því að aukið rennsli hleypi lífi í laxinn, en fjöldi laxa er þar mun meiri en aflatölur gefa til kynna.

Veiðimenn sem eiga daga í Stóru Laxá í Hreppum gætu átt vona á góðri veiði þegar fiskur tekur að ganga upp úr Hvítá. Stóra Laxá sem ekki hefur verið svipur hjá sjón þetta sumarið hefur vaxið mikið síðastlitiðinn sólarhring og er útlit fyrir frekari rigningu á svæðinu. Í morgun stóð rennsli árinnar í tæpum 9 m3/s. Líklegt má teljast að veiðin færist í aukana ef rennslið nær um 15 m3/s, en jafnan er talað um það vatnsmagn sem kjörvatn Stóru Laxár.

Mynd af Myrkhyl í Norðurá þennan morgunin. Áin stendur í 54 m3/s.

 

Ár á borð við Laxá í Kjós, Grímsá, Gljúfurá, Þverá, Haffjarðará og Straumfjarðará sem allar hafa verið vatnslitlar þetta veiðisumarið fá nú vonandi góða innspýtingu. Fróðlegt verður að fylgjast með aflabrögðum þessa vikuna í kjölfar fyrstu alvöru rigninga sumarsins. Ef líkum lætur mun laxveiðin taka mikinn kipp næstu sólarhringa.

Líflegar opnanir

Björn Kr. Rúnarsson með einn af fyrstu löxum sumarsins úr Vatnsdalsá 2019, spikfeita hrygnu úr Hnausastreng.

 

Nú opnar hver laxveiðiáin á fætur annarri og þrátt fyrir misgóðan vatnsbúskap fer veiðin nokkuð vel af stað. Nú í morgun opnaði Reykvíkingur ársins, Helga Steffnsen, Elliðaárnar og landaði hún fyrsta laxi sumarsins, 7 punda nýrunnum í Sjávarfossi. Aðrir veiðimenn tóku síðan við og lönduðu m.a. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sitthvorum tveggja ára laxinum. Fleiri laxar hafa veiðst í dag og eru nú að minnsta kosti 8 laxar komnir á land. Þá fengum við fregnir af því að sannkallaður stórlax (um og yfir 100 cm) hafi tapast í Teljarastreng á fyrstu vakt. Það verður að teljast tíðindi, enda slíkir fiskar afar sjaldséðir í Elliðaánum.

Laxá í Aðaldal, Ytri Rangá og Víðidalsá opnuðu sömuleiðis allar í morgun. Morgunvaktin í Aðaldalnum skilaði þremur löxum og fleiri töpuðust. Allir fiskarnir voru tveggja ára stórlaxar sem koma vel haldnir úr sjó. Þá fengum við fregnir úr Víðidalsá en þar var fjórum löxum landað á morgunvaktinni auk þess sem nokkrir töpuðust, þ.á.m. einn alvöru Víðidalsárhængur sem sleit sig lausan. Þessi byrjun er framar vonum enda hefur vatnsstaða árinnar verið lág á undanförnum vikum. Vonandi hleypa rigningar nú enn frekara lífi í veiðina. Fréttir úr Ytri Rangá lofa góðu en þar var níu löxum landað á fyrstu vakt. Áin er fremur lág í vatni, um feti lægri en á sama tíma í fyrra. Fyrsti fiskurinn úr Djúpósi koma á land rétt í þessu og eru staðfestir 5 laxar á seinni vaktinni þegar þetta er skrifað. Veiðimenn sem þar eru staddir hafa séð fiska vera að rúlla inn nú undir kvöld sem veit vonandi á góða daga framundan.

Fyrsti laxinn úr Ellliðaánum 2019. Mynd fengin frá SVFR.

Mynd úr Vatnssdalsá nú í kvöld

Laxá á Ásum fór rólega af stað fyrstu dagana eftir opnun þrátt fyrir að vera undanskilin vatnsleysi. Í morgun urðu menn varir við fyrstu alvöru gönguna en sett var  í 10 laxa á morgunvaktinni, þó aðeins þrír þeirra hafi náðst á land. Seinnipartinn í dag opnaði Vatnsdalsá svo fyrir veiðimönnum. Tíðindin þaðan eru mjög svo jákvæð, fiskur nokkuð víða og góð veiði. Þegar við heyrðum í veiðimönnum nú undir kvöld var strax búið að landa 5 löxum. Í Hnausastreng var mikið líf en úr hylnum var búið að landa þremur löxum auk þess sem nokkrir sluppu. Vatnsstaða árinnar er lág en að sögn langt frá því að vera komin að þolmörkum. Ekki verður annað sagt en að laxveiðin fari vel af stað norðanlands og sunnan þó rigninguna vanti sárlega.

Flottar opnanir í silungnum

Veiðimaður berst við stóra bleikju á Þingvöllum í byrjun vikunnar

Nú hafa bæði Arnarvatns- og Skagaheiði opnað fyrir veiðimönnum. Þrátt fyrir kuldatíð síðustu daga hefur veiðin verið með ágætum. Vatnshiti er nú víða hærri en lofthiti sem hefur reynt á veiðimenn, en kaldar nætur hafa jafnan dregið úr töku.

Við heyrðum í veiðimönnum sem gerðu hörku veiði á Skagaheiði um síðustu helgi. Þar var milt veður yfir daginn en töluverð þoka. Erfiðlega gekk að finna réttu fluguna en svo kom bingóið þegar það tókst. Langskeggur, óþyngdur, eftir Örn Hjálmarsson gaf flesta fiska, vel haldna á bilinu 1-3 pund, mest urriði. Sömu sögu er að segja af Arnarvatnsheiði, hann fór að gefa sig þegar rétta flugan fannst. Þar voru Pheasant Tail, Krókurinn og Vorpúpan að gefa vel í lækjunum. Flestir fiskar í vötnunum komu hinsvegar á svartan Dýrbít, hvítan Nobbler og þyngdan Rektor.

Sólsetur á Arnarvatnsheiði

Nú er einnig búið að opna Veiðivötn en þar hafa veiðimenn barist við kulda og vind. Opnunarmorguninn 18. júní var lofthiti aðeins 5°c og fór niður í 1-2°c yfir nóttina. Veiðin hefur þó verið merkilega góð þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Veiðimenn sem við heyrðum í báru sig vel, nokkuð líf og stórir fiskar. Þeir höfðu veitt niðri, með intermediate línum og notast við veiðivatnaflugurnar svokölluðu, þ.e. Koparinn, Gullið, Búra og Green Kelly. Einnig fengust fiskar á Black Ghost Olive og Dýrbít.

Black Ghost Olive, Nobbler, Dýrbítur og Rektor

Koparinn, Gullið, Green Kelly og Langskeggur, eftir Örn Hjálmarsson

Veiðin á Þingvöllum hefur verið með besta móti, bleikjan komin í tökustuð og flestir að gera flotta veiði. Þar hafa menn verið að ná bleikjunni á ýmsar flugur, s.s. þyngdan langskegg og fremur stóra Killera, Peacock og Phesant Tail. Jafnan hefur veiðin verið best snemma á morgnanna og aftur á kvöldin.

Falleg bleikja við það að renna í háfinn

Opnun Blöndu 2019

Brynjar Þór Hreggviðsson með flottan lax úr Blöndu, 81 cm hrygnu af Breiðu suður sem tók Sunray Skull.

Veiði í Blöndu hófst í gær, 5. júní, venju samkvæmt kl. 07:00. Áin var í fallegu vorvatni, fremur svalt í veðri og stíf norðanátt. Fyrsti fyrsti fiskur sumarsins kom á land úr Damminum að sunnanverðu kl. 07:20 og var það Brynjar Þór Hreggviðsson sem landaði fallegri 78 cm hrygnu sem fékk frelsið að nýju. 

Fyrsta vakt gaf 8 laxa á bilinu 78 – 92 cm, allt nýgengnar hrygnur. Friggi, rauður og þýskur, hafa gefið flestu fiskana, en veiði hefur dreifst nokkuð jafnt á alla veiðistaði. Eftir þrjár vaktir voru komnir 17 laxar á land, sá stærsti 94 cm hrygna sem Ársæll Bjarnason landaði undir undir hádegi.

Reynir Sigmundsson með glæsilega 93 cm hyrgnu af Breiðunni sem tók 1″ Rauðan Frigga

Opnun Norðurár 2019

Þorsteinn Stefánsson hampar hér fallegri hrygnu úr Norðurá.

Norðurá í Borg­ar­f­irði opnaði í morg­un í björtu en köldu veðri. Áin var ákaflega vatnslítil miðað við árstíma, enda óalgengt að Norðurá fari undir 4 rúmmetra í júní. Þrátt fyrir fremur erfið skilyrði náðust 7 laxar á land á fyrstu vakt. 

Fyrsti lax sumarsins kom á land á Eyrinni og var það Guðrún Sig­ur­jóns­dótt­ir, for­maður veiðifé­lags­ins, sem landaði 74 cm lýsugri hrygnu á Haug gárutúpu.