Veiðitímabilið fer vel af stað

Flott byrjun

Veiði hófst víða í morgun og er óhætt að segja að nýtt veiðitímabil fari nokkuð vel af stað. Eftir kuldakast síðustu viku hafa hitatölur heldur farið upp á við og gert veiðimönnum lífið bærilegra. Við höfum fengið fréttir víða að og má lesa það helsta hér að neðan.

Húseyjarkvísl
Í Skagafirði er nú sunnan andvari, sól og 6°c hiti. Veiðimenn leyfðu hitastiginu að rísa áður en þeir fóru út og hófu leika upp úr kl. 13.  Samkvæmt nýjustu tölum hefur 10 fiskum verið landað á fyrsta klukkutímanum. Mesta veiðin er á neðri svæðunum og stærð fiska á bilinu 55-70 cm, mest geldfiskur. Iða Trailer og Black Ghost hafa skilað allri veiðinni. Lokatölur úr Húseyjarkvísl opnunardaginn eru 16 fiskar.

Óli Angling IQ með fiskúr húseyjarkvísl

Ólafur Rangar Garðarsson með fanta fisk úr Húseyjarkvísl 1. apríl.

Tungufljót
Veiðimenn við Tungufljót í Vestur-Skaftafellssýslu hófu veiðar upp úr klukkan 11 í morgun. Veður var með besta móti, 5°c hiti, léttskýjað og hægur vindur. Á fyrstu tveimur klukkustundunum var 12 fiskum landað og komu þeir allir úr Syðri-Hólma og Flögubakka. Megnið af fiskinum var á bilinu 65-70 cm, þó tveir stærri. Nú í kvöld fengum við fregnir af því að 24 fiskum hafði verið landað, sá stærsti 81 cm. 

Tungufljót sjóbirtingur Addi

Arnbjörn Guðjónsson með flottan geldfisk úr Tungufljóti.

Eyjafjarðará
Í Eyjafjarðará byrjuðu menn um kl. 9 í morgun. Veðrið lék ekki við mannskapinn því hávaðarok var á svæðinu og um 5°c hiti. Við náðum tali af veiðimönnum sem voru á leið í hvíldina og sögðu aðstæður afar erfiðar og veiðin eftir því. Um 10 fiskum var þó landað í morgunsárið, mest 60-70 cm, sá stærsti var rúmir 80 cm.  

Stefán Ákason og Stefán Hrafnsson með flotta fiska úr Eyjafjarðará.

Tungulækur
Eins og í öðrum sjóbirtingsám hófst veiði í Tungulæk við Kirkjubæjarklaustur nú í morgun. Veiðimenn tóku daginn hæfilega snemma og hófu veiðar um kl. 9. Aðstæður eru ágætar, töluverður vindur en hiti um 6°c. Lítið vatn er í læknum og fiskur því bunkaður saman á neðri hluta svæðisins. Um hádegisbil hafði um 25 fiskum verið landað, mest á bilinu 65-75 cm. Stærsti fiskurinn mældist rúmir 90 cm. Alls veiddust 46 sjóbirtingar opnunardaginn i Tungulæk.

Sjóbirtingur úr Holunni í Tungulæk 1. apríl.

Tungufljót sjóbirtingur Syðri Hólmur

Fallegt veður er nú á suðurlandi.

Eldvatn
Veðrið leikur við veiðimenn í Eldvatni enda er þar 12 stiga hiti og hægur vindur. Sól skín í heiði sem eru svo sem ekki ákjósanlegustu aðstæður í sjóbirting. Sex fiskar komu á land í morgunsárið, allt upp í 90 cm. Nokkuð rættist úr veiði seinnipartinn og þegar þetta er skrifað var vitað um 14 fiska á land.

Eldvatn sjóbirtingur

Alexander Stefánsson með geggjaðan fisk úr Eldavatni.

Ytri Rangá
Neðra svæði Ytri Rangár opnaði í morgun og fór veiði rólega af stað. Þó var stærðar fiski landað úr Húsbakka og reyndist hann vera 99. Fiskinn veiddi Skagamaðurinn Jóhannes Guðlaugsson á Silver-Tinsel. Veður er þokkalegt eins og annars staðar á Suðurlandi, hægur andvari og sól með köflum.

Jóhannes Guðlaugsson með tröllið úr Ytri Rangá.

Sog – Ásgarður
Árni Baldursson og félagar opnuðu Ásgarðssvæðið í Soginu um hádegisbil. Hæg vestanátt er á svæðinu, sól og 6°c hiti. Aðstæður eru ekki ákjósanlegar hvað bleikjuna varðar, en Sogið geymir einnig töluvert af urriða, staðbundnum og sjógengnum. Í samtali við Árna var það helst urriðinn sem gaf sig en 6 slíkum var landað fyrir hádegi.

Þingvallavatn
Veiði hófst í Þingvallavatni nú í morgun, um 15 dögum fyrr en venjulega. Ákveðið var að heimila veiði í vatninu 1. apríl þetta árið, veiðimönnum til mikillar ánægju. Á svæðinu er aðstæður hinar bestu, 13°c hiti, hægur vindur og léttskýjað. Stefán Bjarnason ásamt fjölskyldu og vinum opnaði ION-svæðið venju samkvæmt og hafði 21 fiski verið landað um kl. 14, eftir um þriggja klukkustunda veiði. Þá höfðu menn misst töluvert af fiski, marga vel væna. Mesta veiðin er á nettar straumflugur, Langskegg og púpur.

Ion þingvellir

Stefán Bjarnason með flottan fisk úr Þorsteinsvík.

Veiðiflugur færa ykkur nánari fréttir eftir því sem þær berast.

Tunufljót 1. apríl

Sigurður Maracus frá Cus Cus landar fallegum sjóbirtingi nú í morgun.