Flottar opnanir í silungnum

Veiðimaður berst við stóra bleikju á Þingvöllum í byrjun vikunnar

Nú hafa bæði Arnarvatns- og Skagaheiði opnað fyrir veiðimönnum. Þrátt fyrir kuldatíð síðustu daga hefur veiðin verið með ágætum. Vatnshiti er nú víða hærri en lofthiti sem hefur reynt á veiðimenn, en kaldar nætur hafa jafnan dregið úr töku.

Við heyrðum í veiðimönnum sem gerðu hörku veiði á Skagaheiði um síðustu helgi. Þar var milt veður yfir daginn en töluverð þoka. Erfiðlega gekk að finna réttu fluguna en svo kom bingóið þegar það tókst. Langskeggur, óþyngdur, eftir Örn Hjálmarsson gaf flesta fiska, vel haldna á bilinu 1-3 pund, mest urriði. Sömu sögu er að segja af Arnarvatnsheiði, hann fór að gefa sig þegar rétta flugan fannst. Þar voru Pheasant Tail, Krókurinn og Vorpúpan að gefa vel í lækjunum. Flestir fiskar í vötnunum komu hinsvegar á svartan Dýrbít, hvítan Nobbler og þyngdan Rektor.

Sólsetur á Arnarvatnsheiði

Nú er einnig búið að opna Veiðivötn en þar hafa veiðimenn barist við kulda og vind. Opnunarmorguninn 18. júní var lofthiti aðeins 5°c og fór niður í 1-2°c yfir nóttina. Veiðin hefur þó verið merkilega góð þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Veiðimenn sem við heyrðum í báru sig vel, nokkuð líf og stórir fiskar. Þeir höfðu veitt niðri, með intermediate línum og notast við veiðivatnaflugurnar svokölluðu, þ.e. Koparinn, Gullið, Búra og Green Kelly. Einnig fengust fiskar á Black Ghost Olive og Dýrbít.

Black Ghost Olive, Nobbler, Dýrbítur og Rektor

Koparinn, Gullið, Green Kelly og Langskeggur, eftir Örn Hjálmarsson

Veiðin á Þingvöllum hefur verið með besta móti, bleikjan komin í tökustuð og flestir að gera flotta veiði. Þar hafa menn verið að ná bleikjunni á ýmsar flugur, s.s. þyngdan langskegg og fremur stóra Killera, Peacock og Phesant Tail. Jafnan hefur veiðin verið best snemma á morgnanna og aftur á kvöldin.

Falleg bleikja við það að renna í háfinn