Veiðitímabilið hafið

Veturinn hefur sannarlega minnt á sig þennan fyrsta dag veiðitímabilsins. Veðurskilyrði í Skaftafellssýslum hafa til að mynda verið afleitar þennan morguninn, frost og 10-18 m/s. Veiðiflugur hafa þó fengið fregnir af þokkalegri veiði, bæði sunnanlands- og norðan.

Í Tungufljóti hófu menn veiðar upp úr kl. 10 í morgun. Alls voru fjórum sjóbirtingum landað fyrir hádegi, en tökur grannar og því sluppu margir fiskar úr klóm veiðimanna. Birtingarnir voru þó vel haldnir, á bilinu 70- 82 cm að stærð.  

Arnbjörn Guðjónsson með laglegan 74. cm hæng í morgunsárið úr Tungufljóti.

Í Húseyjarkvísl hafa aðstæður sömuleiðis verið erfiðar, brunakuldi, norð-vestan og snjókoma. Áin er enn mikið lituð eftir rigningu gærdagsins en veiði þó merkilega góð. Upp úr hádegi höfðu veiðimenn landað yfir 10 fiskum, mest vel höldnum geldfiski, 70-80 cm. Loks fór hann að gefa sig þegar flugan Iða var sett undir, en sú fluga er hreint mögnuð þegar ár eru skolaðar. Klassískt seinniparts bingó var að hefjast þegar við heyrðum í Skagafirði um kl. 15, en þá voru allar stangir með hann á! Uppfært: Alls veiddust 30 sjóbirtingar opnunardaginn í Húseyjarkvísl.

Valgarður Ragnarsson með fallegan gedlfisk úr húseyarkvísl í morgun.

Úr Varmá fengum við þær fregnir að sjóbirtingur hefði kroppast upp í morgun. Mesta veiðin var eins og oft áður úr Stöðvarhyl. Áin fór líkt og aðrar í mikið kakó en er nú að sjatna eftir að rigningunni slotaði og kólna fór í veðri.

Eyjafjarðará tók á móti veiðimönnnum í morgun með snjókomu og brunagaddi, en áin mældist aðeins 1°c. Á svæði 3 mættu grjótharðir veiðimenn í birtingu og lönduðu þeir 6 fiskum fyrir hádegi. Síðustu fregnir af svæði 2 hljóðuðu upp á 4 birtinga en einn hafði bæst við seinnipartinn.

Veiðimenn skulu virða tveggja metra regluna á veiðislóð!

Veiðimenn í opnun Tungulækjar hafa ekki verið að stressa sig og ekkert veitt í morgun, enda veðurskilyrði afar slæm á svæðinu. Menn höfðu þó séð mikið af fiski í gær og því má búast við fantaveiði þegar veðrinu slotar.

Sömu sögu höfum við úr Eldvatni, en þar eru ákaflega erfiðar aðstæður og fiskurinn tregur til töku. Nú seinnipartinn höfðu menn þó landað þó nokkrum fiskum. Uppfært: Samkvæmt óstaðfestum fregnum var 4 fiskum landað úr Eldavatni opnunardaginn.

Veiði gekk ákaflega vel í Litluá i Kelduhverfi 1. apríl. Rétt tæplega 100 fiskar voru færðir til bókar, mest staðbundinn urriði en þó nokkrar bleikjur. 

Fréttin verður uppfærð eftir því sem ný tíðindi berast.

Lognið á undan storminum 1. apríl 2020.