Vorveiðiráð

Vorveiðiráð-vorstemmning

Enn er hálfgerð vetrartíð þótt veiðitímabilið sé hafið samkvæmt almanakinu. Víða um land eru veiðimenn farnir að renna fyrir fisk, einkum urriða, bæði staðbundinn og sjógenginn. Vorveiði er að nokkru leyti frábrugðin þeirri veiði sem við þekkjum á sumrin. Fiskurinn er í litlu æti, loft- og vatnshiti er almennt lágur og náttúran er rétt að vakna til lífsins eftir vetrardvala. En hvernig er best að athafna sig í vorveiði svo bestur árangur náist? Auðvitað er ekki til neitt eitt svar við slíkri spurningu, en hér á eftir verður rennt yfir nokkur atriði sem vonandi koma að gagni.

Að nálgast fisk

Hvort sem veitt er að vori, sumri eða hausti er mikilvægt að nálgast fisk af varkárni, þ.e. að láta sem minnst fyrir sér fara. Vorfiskur getur verið glettilega styggur, sérstaklega þegar vatn er tært og eða þegar heiðskírt er. Þá má halda því fram að fiskur sem liggur í tæru vatni sé mun styggari en sá sem liggur undir skoluðu vatni. Að sama skapi er fiskur á grynnra vatni styggari en sá sem liggur djúpt.

  • Þar sem vatn er tært þarf að nálgast fisk afar rólega.
  • Ekki vaða út sé þess nokkur kostur, sérstaklega í tæru og hægu vatni.
  • Hafa skal í huga hvar sólin er á lofti, gættu þess að hún varpi ekki skugga á veiðistaðinn.
  • Oft getur verið árangursríkt að nálgast fiskinn aftanfrá og veiða andstreymis.
  • Vorfiskur liggur oft á grunnu vatni, nálægt bakka, mun nær en þú heldur.

Mikilvægt er að nálgast veiðistað af varkárni.

Aðstæður eru síbreytilegar á vorin.

Fluguval

Margir halda að vorfiskur taki nánast hvað sem er, en í raun er málið ekki svo einfalt. Vissulega geta komið stundir þar sem veðuraðstæður, litur vatnsins og hitastig fer saman og þá skiptir flugugerðin minna máli en ella. Almennt er unnt að nota stærri flugur að vori en sumri, einkum vegna þess að fæðuframboð er takmarkað. Þegar aðstæður eru ákjósanlegar og hægt er að nálgast fisk án þess hann styggist eru straumflugur eitt skæðasta vopnið. Flugur eins og Black Ghost, Nobbler, Dýrbítur, Golli, Iða og Rektor virka jafnan vel. Hafðu í huga að í nettari ám er heppilegra að nota smærri straumflugur en í þeim stærri.  

Þegar verður er stillt og sólin skín getur reynst erfitt að fá fisk til að taka straumflugur með hefðbundinni aðferð. Það skýrist af því að erfitt er að komast í færi án þess fiskurinn styggist. Þetta á frekar við þegar veitt er í ám en stöðuvötnum. Í þeim aðstæðum er betra að veiða andstreymis, kasta straumflugunni upp í straum og strippa niður hylinn. Vænlegasta aðferðin er þó sennilega sú að kasta púpum andstreymis og láta renna niður hylinn á hraða árinnar. Yfirleitt eru notaðar þungar tungsten-púpur til að flugan komist hratt niður til fisksins. Þá getur borgað sig að nota tökuvara til að ákvarða hvenær skuli brugðið við fiskinum. Púpur á borð við Krókinn, Phesant Tail, Vorpúpuna, Peacock, Holuna, Copper John, Héraeyra og Langskegg eru jafnan skæð vopn.

Black Ghost Olive, Nobbler, Dýrbítur og Rektor.

Púpan Copper John í kjafti silungs.

Veiddu djúpt

Almennt má segja að silungur reyni að lágmarka orkueyðslu við fæðuöflun, þ.e. fiskurinn vill hafa sem minnst fyrir því að éta. Þetta á sérstaklega við um vorfisk, einkum þegar vatns- og lofthiti er lágur. Ef kalt er í veðri er líklegt að fiskur sé ekki reiðubúinn að elta agn yfir langan veg, sérstaklega ekki það agn sem ferðast hratt. Í miklum kulda getur því besta ráðið verið að koma agninu niður til fisksins. Að nota sökkenda eða sökklínur getur skipt sköpum í vorveiði. Þó ber að hafa í huga að ef vatn er tært og veður stillt geta slíkar línur gert meira ógagn en gagn því þær lenda gjarnan harkalega á vatnsfletinum.

Hugaðu að því hvernig unnt er að koma flugunni niður til fisksins án þess að styggja hann. Í sjóbirtingsám sem eru skolaðar virkar jafnan best að veiða djúpt með sökklínum, enda fiskur ekki eins var um sig. Í tærari ám eru sökkendar ekki eins vænlegir til árangurs, þá er betra að nota þungar flugur og langa tauma á flotlínu. Með því að kasta andstreymis þungum flugum, púpum eða straumflugum, kemur þú agninu niður til fisksins og minnkar líkur á því að hann styggist. Notaðu tauma eftir aðstæðum, grennri tauma fyrir viðkvæmari svæði. Prófaðu mismunandi aðferðir, dragðu inn hægt eða hratt, stutt eða langt eða jafnvel slepptu því alveg. Yfirleitt borgar sig þó að hægja á, fiskurinn nennir jafnan ekki að sækja flugu sem dregin er inn á ógnarhraða.

Besti veiðitíminn

Almennt er besti veiðitíminn á vorin um hádegisbil og fram eftir degi. Það skýrist af því að eftir nóttina er gjarnan kalt en með hækkandi sól eykst lofthiti. Varastu því að fara út of snemma, sé það gert er hætta á að fiskurinn sé barinn niður og tökuleysið verði meira en ella. Í vorveiðinni liggur ekkert á, njóttu þess bara að vera í veiði og slappaðu af.

Meðhöndlun á fiski

Vorfiski ber nær undantekningarlaust að sleppa. Slíkur fiskur er jafnan horaður eftir veturinn og telst því vart matfiskur. Gættu þess að fara varlega með fisk sem skal sleppt aftur. Haltu honum eins og kostur er í vatninu og forðastu að drösla honum á land. Gefðu fiskinum tíma til að jafna sig áður en þú sleppir takinu.

Prófaðu þig áfram

Auðvitað er ekkert algilt þegar veiðin er annarsvegar og aðstæður breytilegar dag frá degi. Þeir sem eru duglegir að reyna nýjar aðferðir, hugsa út fyrir kassann, ná yfirleitt betri árangri en þeir sem fastir eru í sama farinu. Þau ráð sem hér hefur verið fjallað um veita þér vonandi nýjar hugmyndir og verða þér hvatning til að fara út að veiða. Mundu bara að klæða þig vel – Góða skemmtun.


HÉR getur fundið lista yfir þau veiðisvæði sem opna í apríl….