Vorveiði – hvað er í boði?

Vorveiði - sjóbirtingur

Þrátt fyrir erfiðan vetur og mikla óvissutíma er sólin farin að hækka á lofti og vorið á næsta leiti. Eflaust hefur hugur margra veiðimanna reikað á veiðislóð síðustu vikur, enda stutt í að veiðin hefjist, sama hvað öðru líður. Lögum samkvæmt hefst nýtt veiðitímabil 1. apríl ár hvert og opna þá fjölmörg vatnasvæði fyrir veiðimönnum. Hér á eftir er ætlunin að draga saman yfirlit yfir helstu ár og vötn sem heimilt er að veiða í apríl.

Sjóbirtingur

Breiðdalsá

Í Breiðdalsá er nú stunduð vorveiði, en uppistaðan er sjóbleikja og urriði. Hægt að kaupa heila eða hálfa daga, eða 2-3 daga holl, allt eftir óskum veiðimanna og stöðu lausra leyfa. Leyfðar eru 6 stangir um vorið án veiðihúss. 

Eldvatn 

Eldvatn í Meðallandi er falleg sjóbirtingsá sem staðsett er í Skaftafellssýslu skammt frá Kirkjubæjarklaustri. Sjóbirtingsvon er mikil í Eldvatni en aðeins er þar veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Á svæðinu eru leyfðar 6 stangir sem allar seljast saman í pakka ásamt veiðihúsi. 

Eyjafjarðará 

Eyjafjarðará við Akureyri er ein af þekktari silungsveiðiám landsins. Í hana gengur mikið magn sjóbleikju og á síðustu árum hefur sjóbirtingsstofn árinnar náð sér á strik. Vorveiði er heimil í Eyjafjarðará frá 1. apríl á neðri svæðum hennar en uppistaða veiðinnar er sjóbirtingur. Heimilt er að veiða á flugu og spún en öllum fiski skal sleppt. Hægt er að kaupa staka daga frá morgni til kvölds en tvær stangir eru leyfðar á hverju svæði.

Fossálar

Fossálar eru býsna vatnsmikil á sem staðsett er í Skaftárhreppi rétt austan við Kirkjubæjarklaustur. Veitt er á þrjár stangir en áin er leigð í tvo daga í senn ásamt veiðihúsi. Uppistaða veiðinnar er sjóbirtingur og ber veiðimönnum að sleppa öllum veiddum fiski. 

Geirlandsá

Geirlandsá á Síðu er nokkuð löng bergvatnsá við Kirkjubæjarklaustur. Áin er þekkt fyrir fagurt umhverfi og vænan sjóbirtingsstofn, enda skipar hún sér á stall meðal bestu sjóbirtingsáa landsins. Vorveiðin hefst 1. apríl og eru 4 stangir seldar saman. Keyptum veiðileyfum fylgir veiðihús með fjórum tveggja manna herbergjum. Skylt er að sleppa öllum hrygningarfiski en leyfilegt agn er fluga. 

Við Geirlandsá er mikil náttúrufegurð.

Grímsá

Grímsá í Lundareykjadal skipar sér sess á meðal bestu laxveiðiáa landsins. Áin býr einnig að nokkuð sterkum sjóbirtingsstofni og hefur vorveiði verið leyfð í ánni undanfarin ár. Grímsá er í um 70 km. fjarlægð frá Reykjavík og því tiltölulega stutt frá höfuðborgarsvæðinu. Veitt er á tvær stangir í Grímsá sem seljast saman án gistingar. Aðeins fluga er leyfileg og skal öllum fiski skal undantekningarlaust sleppt aftur. 

Hólsá

Neðsti hluti Eystri Rangár og ármót hennar við Ytri Rangá nefnast Hólsá allt niður að sjó. Við austurbakka Hólsár er stunduð vorveiði í apríl en uppistaða veiðinnar er sjóbirtingur og staðbundinn urriði. Leyfilegt agn er fluga og spúnn og skal öllum fiski sleppt. Veitt er á fjórar stangir en gisting er ekki innifalin í seldum leyfum.

Húseyjarkvísl

Húseyjarkvísl í Skagafirði er ein gjöfulasta sjóbirtingsá landsins. Áin er spölkorn frá Varmahlíð og fellur í Héraðsvötn sunnan Sauðárkróks. Vorveiði er leyfð á silungasvæði árinnar frá 1. apríl. Veitt er á þrjár stangir og skal öllum fiski sleppt. Gott veiðihús fylgir keyptum veiðileyfum.

Húseyjarkvísl er þekkt fyrir stóran sjóbirtingsstofn.

Laxá í Kjós

Laxá í Kjós rennur í Hvalfjörð og er fyrst og fremst þekkt sem laxveiðiá, þó í hana gangi einnig mikið af sjóbirtingi. Hófleg vorveiði hefur verið stunduð í neðri hluta árinnar en aðeins er veitt á fjórar stangir. Eingöngu er leyfð fluguveiði og skal öllum fiski sleppt. 
 

Leirá

Leirá í Leirársveit er lítil og nett veiðiá sem er aðeins í um 35 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. Vorveiði er stunduð í Leirá í apríl og er þar ágæt sjóbirtingsvon. Veitt er á tvær stangir sem seljast saman ásamt veiðihúsi. Aðeins er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. 

Leirvogsá

Leirvogsá rennur í Mosfellssveit við Mosfellsbæ og er aðallega þekkt sem laxveiðiá. Í ánni veiðist einnig sjóbirtingur sem heimilt er að veiða á neðri svæðum árinnar á vorin. Tvær flugustangir eru leyfðar á svæðinu og seljast þær saman í einn dag í senn án veiðihúss frá 1. apríl. Veiðisvæðið nær frá Helguhyl niður að ós. Skylt er að sleppa öllum veiddum fiski. 

Litlaá í Kelduhverfi

Litlaá í Kelduhverfi er falleg bergvatnsá staðsett skammt frá Ásbyrgi, rúma 50 km frá Húsavík. Áin er sérstök fyrir þær sakir að meðalhiti hennar er afar hár og vaxtahraði fiska því mikill. Vorveiði í Litluá hefst 1. apríl og eru 5 stangir leyfðar auk tveggja stanga í Skjálftavatni. Aðeins er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Uppistaða veiðinnar er sjóbirtingur og staðbundinn urriði. 

Steinsmýrarvötn

Steinsmýrarvötn eru skammt frá Kirkjubæjarklaustri og samanstanda af tveimur vötnum auk lækja sem úr þeim renna. Á svæðinu fást allar gerðir silungs en uppistaða veiðinnar á vorin er sjóbirtingur og staðbundinn urriði. Veitt er á fjórar stangir sem leigjast allar út saman án veiðihúss. Heimilt er að nota blandað agn en kvóti miðast við 1 fisk, eftir það skal öllum fiski sleppt. 

Tungufljót í Skaftártungu

Tungufljót í Vestur-Skaftafellssýslu, milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs, er ein af þekktari sjóbirtingsám landsins. Fljótið á upptök sín á hálendinu ofan við Skaftártungu og telst til bergvatnsáa, en það sameinast Ása-Eldvatni við veiðistaðinn Syðri-Hólma og renna árnar saman í Kúðafljót. Veiði í Tungufljóti hefst 1. apríl og er uppistaða veiðinnar sjóbirtingur, en 4 stangir eru leyfðar á svæðinu sem seljast saman. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt undantekningarlaust. Keyptum veiðileyfum fylgir veiðihús með gistirými fyrir 8 manns. 

Syðri Hólmi, við ármót Tungufljóts og Ása-Eldvatns.

Tungulækur geymir mikið af sjóbirtingi.


Tungulækur

Tungulækur er ein gjöfulasta sjóbirtingsá landsins og þó víðar væri leitað, en þar er veitt á 3 stangir. Tungulækur er tiltölulega lítil og nett á sem rennur í Skaftá rétt sunnan Kirkjubæjarklausturs. Eingöngu er veitt á flugu og skylt er að sleppa öllum fiski. Veiðileyfum fylgir nýtt stórglæsilegt veiðihús með þremur rúmgóðum herbergjum. 

Vatnamótin

Vatnamótin eru líkt og margar sjóbirtingsár staðsett í nágrenni Kirkjubæjarklausturs, í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta svæði eru nokkuð víðfeðmt en á því koma saman nokkrar ár sem svo sameinast í Skaftá. Svæðið er nokkuð kvikt og breytir sér reglulega, þar er sjóbirtingsvon mikil en veitt á 5 stangir. Vatnamótin eru leigð út í tvo daga í senn og þar er blandað agn leyfilegt. Svæðinu fylgir gisting að Hörgslandi.

 

Varmá

Varmá er lítil veiðiá sem rennur um Hveragerði í aðeins um 30 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. Áin sameinast Sandá og nefnist þá Þorleifslækur uns hann rennur í Ölfusá. Varmá geymir allar tegundir íslenskra ferskvatnsfiska en uppistaða veiðinnar á vorin er sjóbirtingur og bleikja. Veiði hefst ár hvert 1. apríl, eingöngu er leyfð fluga og skal öllum fiski að voru sleppt aftur. Engin gisting fylgir keyptum leyfum en lítið veiðihús er staðsett ofan við þjóðvegsbrú. 

 

Varmá er lítil en skemmtileg veiðiá.

Í Ytri Rangá er töluvert af urriða, staðbundnum og sjógengnum.


Ytri Rangá – neðri hluti

Ytri Rangá er í dag fyrst og fremst þekkt sem laxveiðiá. Hún býr þó að góðum sjóbirtingsstofni en að auki leynast þar staðbundnir urriðar. Í apríl er áin veidd með 6 stöngum sem fáanlegar eru stakar eða saman í pakka. Verði er stillt í hóf en stangardagurinn er á 10.000 kr. án gistingar. Ársvæðið nær frá Æðarfossum til og með Djúpós. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt aftur. 

Ölfusárós

Um Ölfusárós gengur allur fiskur sem fer upp í Ölfusá, Stóru Laxá, Sogið, Brúará, Hvítá og Tungufljót í Biskupstungum.  Meginstraumur árinnar liggur við austurlandið geta veiðimenn átt von á að lax, sjóbleikja, sjóbirtingur og jafnvel sjávarfiskar bíti á. Algengast er þó að veiða sjóbirting á vorin. Blandað agn er leyfilegt í ósnum en heimilt er að veiða á 10 stangir. 

 

 

Staðbundin bleikja og urriði

Brunná í Öxarfirði

Veiðisvæði Brunnár í Öxarfirði samanstendur af Gilsbakkaá, Tunguá og Smjörhólsá. Svæðið er skammt frá Ásbyrgi, í rúmlega 60 km. fjarlægð frá Húsavík. Seldir eru stakir dagar án veiðihúss en þar er veitt á tvær stangir. Á vorin veiðist töluvert af staðbundnum urriða og bleikju á svæðinu. Aðeins er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt.

Brúará

Brúará er önnur vatnsmesta bergvatnsá landsins á eftir Soginu. Hún staðsett á suðurlandi, skammt frá Skálholti, rétt austan Laugarvatns. Brúará er þekkt fyrir góða silungsveiði en bleikja veiðist í töluverðu magni á vorin. Veiðisvæðið skiptist í austur og vesturbakka, fyrir landi Sels og Spóastaða. Blandað agn er leyfilegt í Brúará og er unnt að kaupa stakar dagstangir án veiðihúss. 

Brúará er þekkt fyrir góða bleikjuveiði.


Galtalækur

Galtalækur er lítil og nett silungsveiðiá staðsett á Suðurlandi. Lækurinn á upptök sín skammt frá Heklu og rennur í Ytri Rangá. Í Galtalæk veiðast mjög stórir staðbundnir urriðar en svæðið er viðkvæmt og krefst mikillar gætni veiðimanna. Seldar eru tvær stangir saman án veiðihúss til eins dags í senn. Aðeins er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. 

Hólaá

Hólaá er um 7 km. löng silungsveiðiá sem rennur úr Laugarvatni í Apavatn. Uppistaða veiðinnar er falleg bleikja en einnig veiðist þó nokkuð af urriða. Veiði hefst 1. apríl og er blandað agn er leyfilegt á svæðinu sem skiptist í nokkur svæði. 

 

Laxá í Aðaldal

Þótt Lax-á í Aðaldal sé einkum þekkt fyrir stóra laxa er í henni mikið magn af silungi. Þar veiðist einkum staðbundinn urriði sem getur orðið rígvænn. Hægt er að kaupa veiðileyfi á nokkrum svæðum í ánni.

Árbót
Veiðisvæði Árbótar í Laxá í Aðaldal er fornfrægt stórlaxasvæði. Þar er þó einnig stunduð silungsveiði á vorin, með möguleika á skemmtilegu veiðihúsi. Um að ræða austurbakka Laxár, á milli Nes- og Laxamýrarsvæðanna.

Syðra fjall
Syðra Fjall er vesturbakki neðsta hluta urriðasvæðanna neðan virkjunar í Laxá í Aðaldal.  Mjög skemmtilegt fjölskyldusvæði með mikilli náttúrufegurð og hreint frábært þurrflugusvæði þegar veður leyfir. Ekkert veiðihús er á svæðinu en veiðimönnum er bent á gistingu í nærliggjandi gistihúsum. 

Presthvammur
Presthvammur er austurbakki efsta hluta urriðasvæðanna neðan virkjunar í Laxá í Aðaldal. Gisting í kofa með rennandi vatni og salerni er innifalin. Í kofanum eru áhöld þess að hita og neyta matar. Þar eru tvö rúm og hægt er að tjalda eða setja upp tjaldvagn innan girðingar við veiðikofann. 

 

Lónsá

Lónsá er lítil veiðiperla á Langanesi. Lónsá er í um 5 mínútna fjarlægð frá Þórshöfn og rennur áin í sjó stutt frá bænum Ytra Lóni. Áin hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir góða sjóbleikju veiði en bæði sjóbirtingur og staðbundin urriði hefur aukist mikið síðustu ár. Á fyrri helmingi tímabilsins í apríl, maí er aðallega veiði á ósasvæðinu og í Sauðaneslóni ásamt staðbundinum urriða ofar í ánni. 

Minnivallalækur

Minnivallalækur er þekktur fyrir stóra staðbundna urriða og krefjandi veiði. Lækurinn er staðsettur í Landssveit í rúmlega 100 km. fjarlægð frá Reykjavík, skammt frá Heklu. Leyfðar eru 4 stangir á svæðinu sem seljast saman ásamt veiðihúsi í tvo til þrjá daga í senn. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt.

Stórir urriðar leynast í Minnivallalæk.


Mýrarkvísl

Mýrarkvísl er hliðará Laxár í Aðaldal sem rennur í Skjálfandaflóa skammt frá Húsavík. Áin er þekkt sem laxveiðiá en í henni veiðist einnig mikið af staðbundnum urriða. Í Mýrarkvísl er leyfðar 4 stangir sem hægt er að kaupa stakar í einn eða fleiri daga. Aðeins er veitt á flugu og ber veiðimönnum að sleppa öllum fiski. Veiðimenn eiga kost á gistingu í veiðihúsi kjósi þeir svo. 

Sog – Ásgarður

Sogið er vatnsmesta bergvatnsá landsins og fellur úr Þingvallavatni í Hvítá. Á vorin er leyfð silungsveiði í Soginu, m.a. á Hólmasvæðinu við Ásgarð. Veiðisvæðið nær frá Álftavatni að veiðimörkum Ásgarðs og Syðri Brúar. Leyfðar eru 4 dagstangir sem seldar eru tvær saman pakka. Leyft er að nota flugu og spún og skal öllum fiski sleppt. Á þessum árstíma er fyrst og fremst egnt fyrir bleikju sem getur orðið rígvæn. 

Ytri Rangá – efri hluti

Til efri hluta Ytri Rangár telst svæðið ofan Árbæjarfoss upp að rótum Heklu. Veiði er stunduð á svæðinu í apríl og er uppistaða veiðinnar vænn staðbundinn urriði. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt aftur. Svæðið er verulega stórt og rúmar því auðveldlega þær 6 stangir sem leyfðar eru. 

Umhverfi Ytri Rangár er víða fallegt.


Þingvallavatn

Í Þingvallavatni eru fjölmörg gjöful veiðisvæði og er vorveiði í vatninu afar eftirsótt. Í apríl eru veiðimenn einkum á eftir hinum víðfræga Þingvallaurriða sem getur orðið gríðarstór. Eingöngu er veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt aftur.

ION-svæðið
Til ION-svæðisins teljast í raun tvö veiðisvæði, þ.e. Þorsteinsvík og Ölfusvatnsós. Þessi svæði þykja með þeim allra bestu í Þingvallavatn enda safnast þar saman mikið af fiski. Í Þorsteinsvík eru heitar uppsprettur en þar er veitt af nokkuð langri sandströnd. Nokkru austar er Ölfusvatnsósinn þar sem áin mætir Þingvallavatni en við ósinn getur legið ótrúlegt magn af urriða. Veitt er á 2 stangir á hvoru veiðisvæði en ION-svæðið er selt sem ein heild frá 20. apríl.  

Fish Partner
Veiðifélagið Fish Partner hefur á að skipa nokkrum veiðisvæðum við Þingvallavatn sem mörg hver þykja afbragðs veiðilendur. Veiði er heimil frá 20. apríl og stakar stangir fáanlegar frá morgni til kvölds. Á meðal veiðisvæða eru Kárastaðir, Svörtuklettar, Villingavatnsárós og Kaldárhöfði. 

Langavatn

Langavatn er í Reykjahverfi á milli Mývatns og Húsavíkur.  Í vatninu eru bæði urriði og bleikja. Langavatn er hluti af hinu víðfeðma vatnakerfi Laxár í Aðaldal.  Úr vatninu rennur Mýrarkvísl niður í Laxá og þaðan til sjávar.  Í vatnið fellur svo Geitafellsá, en hún á svo upptök upptök sín í Kringluvatni. Allt löglegt agn er leyft en leyfi eru án veiðihúss. 

 

Vatnaveiði - Veiðikortið

Baulárvallavatn er á Snæfellsnesi

Veiði í Baulárvallavatni hefst 1. apríl, eða þegar ísa leysir. Vatnið er um 160 km. frá Reykjavík, um 15 km. í suður frá bæði Grundarfirði og Stykkishólmi, á leið frá Vegamótum í norður. Urriðaveiði er góð í vatninu.  Meðalþyngd fiska er 2-3 pund, en algengt er að þar veiðist stærri fiskar á bilinu 5-6 pund.

Gíslholtsvatn

Gíslholtsvatn er í Holtahreppi í Rangárþingi í um 85 km fjarlægð frá Reykjavík. Tvö vötn eru á svæðinu, Eystra og Vestra- Gíslholtsvatn.  Handhafar Veiðikortsins mega aðeins veiða í eystra vatninu að vestanverðu, þ.e. í landi Gíslholts. Staðbundin bleikja og urriði veiðist, en bleikjan er nokkuð smá en urriðinn getur verið vel vænn. Veiði er heimil þegar ísa leysir.

Hraunsfjarðarvatn

Hraunsfjarðarvatn er á Snæfellsnesi rétt við Baulárvallavatn í um 200 km. frá Reykjavík, um 15 km. í suður frá bæði Grundarfirði og Stykkishólmi, á leið frá Vegamótum í norður. Jafnan er veiði góð í vatninu. Einungis veiðist þar urriði sem gjarnan er vænn. Meðalþyngd fiska er 2-3 pund, en algengt er að þar veiðist stærri fiskar, 5-6 pund. Veiðitímabil hefst þegar ísa leysir.

Hraunsfjörður

Hraunsfjörður er á norðanverðu Snæfellsnesi, mitt á milli Stykkishólms og Grundarfjarðar. Svæðið er afburðarskemmtilegt en um er að ræða lón fyrir innan stíflu við Hraunsfjörð. Svæðið er víðáttumikið og þar er mikið af fiski, aðallega bleikju. Veiði er heimil frá 1. apríl. 

Kleifarvatn

Kleifarvatn er á Reykjanesskaga, staðsett á milli Sveifluhálsar og Vatnshlíðar. Kleifarvatn er eitt af stærstu vötnum landsins, um 8 km2 að stærð og í 136 metra hæð yfir sjávarmáli. Vatnið er frægt fyrir stórfiska og sýna mælingar að mikið er af fiski í vatninu. Í vatninu er bæði bleikja og urriði en tímabilið hefst 15. apríl. 

Meðalfellsvatn

Meðalfellsvatn er í Kjósarhreppi í Hvalfirði. Vatnið er um 2 km2 að stærð og um 18 metra djúpt þar sem það er dýpst. Vatnið stendur í 46 metra hæð yfir sjávarmáli.  Í vatnið renna Sandsá og Flekkudalsá en úr því fellur Bugða sem rennur í Laxá í Kjós. Mest veiðist af smábleikju en einnig nokkur urriða sem gefur sig best á vorin. Veiði í Meðalfellsvatni hefst 19. apríl.

Sauðlauksdalsvatn

Sauðlauksdalsvatn er í Vestur-Barðastrandasýslu á Vestfjörðum, í nágrenni Patreksfjarðar. Í vatninu er bleikja, bæði sjógengin og staðbundin. Einnig er vænan urriða að finna í vatninu og hafa menn verið að veiða allt að 16 punda stykki.  Uppistaðan í bleikjuveiðinni er 1-1,5 pund að þyngd. Veiði er heimil í Sauðlauksdalsvatni eftir að ísa leysir.

Syðridalsvatn

Syðridalsvatn er í Bolungavík við Ísafjarðardjúp. Veiði er heimil í öllu vatninu og meðfylgjandi not eru af nærliggjandi ám, Gilsá og Tröllá. Í vatninu veiðist staðbundin bleikja, sjóbleikja og sjóbirtingur. Veiði er heimil frá 1.apríl. 

Urriðavatn

Urriðavatn er í nágrenni Egilsstaða. Veiða má í öllu vatninu. Helstu veiðistaðir eru við ósa Hafralækjar og Urriðavatnslækjar, en einnig við hitaveitutanka og víðar. Í vatninu er eingöngu bleikju að finna. Uppistaðan er 1 punda bleikja, en þó slæðast með stærri fiskar. Leyfilegt er að veiða frá morgni til kvölds allt árið um kring.

Þingvallavatn

Þingvallavatn í Þingvallasveit er eitt gjöfulasta vatn landsins. Í vatninu eru 4 tegundir af bleikju sem og víðfrægur urriðastofn. Algeng stærð á bleikjunni er frá hálfu pundi upp í 4 pund.  Bleikjutegundirnar eru: Kuðungableikja, sílableikja, murta og gjámurta. Í upphafi veiðitímabilsins er það fyrst og fremst urriðinn sem gefur sig. Fluguveiðitímabilið hefst 20. apríl og stendur til 31. maí. Þá má einungis veiða á flugu og öllum urriða skal sleppt.

Vífilstaðarvatn

Vífilsstaðavatn er í Garðabæ, austan við Vífilsstaði. Í vatninu fæst einkum urriði og bleikja. Mest er um smábleikju, en einnig veiðist töluvert af stærri fiski, yfirleitt 1-2 pund. Fiskurinn úr vatninu er mjög góður matfiskur. Veiðitímabilið hefst 1. apríl.

Þveit

Þveit er í Nesjahreppi í Austur-Skaftafellssýslu. Þveit er í um 450 km. fjarlægð frá Reykjavík og um 10 km. frá Höfn í Hornafirði. Í vatninu finnst bleikja, urriði, sjóbirtingur og sjóbleikja. Veiðitímabil hefst 1. apríl.

Hlíðarvatn í Hnappadal

Hlíðarvatn er í Kolbeinsstaðahreppi og er við Heydalsveg nr. 55. Hlíðarvatn í Hnappadal er gjöfult og vinsælt veiðivatn. Sérkenni vatnsins eru að vatnshæð breytist mikið yfir sumarið og veiðistaðir í hrauninu breytast því talsvert milli mánaða. Í vatninu veiðast bæði bleikja og urriði, jafnt litlir og stórir fiskar. Heimilt er að veiða í Hlíðarvatni allt árið um kring. 

Starfsfólk Veiðiflugna hefur reynslu af veiði í vel flestum ofantalinna vatnasvæða og er fúst að aðstoða með val á veiðileyfum sé þess óskað. Ekki hika við að hafa samband við okkur í gengum Facebook, Instagram, í síma 527 1060 eða á netfanginu [email protected].

Athugið að listi þessi er ekki tæmandi. Ábendingar um önnur veiðisvæði eða aðrar upplýsingar má senda á [email protected].