Flugur í Norðurá

Flugur í Norðurá - þorsteinn Stefánsson viðtal

Flugur í Norðurá – Rætt við Þorstein Stefánsson, leiðsögumann.

Norðurá í Borgarfirði er ein af þekktari laxveiðiám landsins. Hún hefur sum árin skilað hreint ótrúlegri veiði, en átt nokkuð erfitt uppdráttar síðustu ár, eins og svo margar aðrar. Vorveiðin í upphafi sumars 2020 fer þó vel af stað, betur en líklega flestir þorðu að vona. Nú nálgast áin 150 laxa, sem má teljast frábært í ljósi dræmrar laxgengdar síðasta ár. Margt bendir til þess að þetta veiðisumarið verði smálaxagöngur öflugar, en það á allt eftir að koma betur í ljós á næstu viku til tveimur.

Á dögunum settumst við niður með Þorsteini Stefánssyni, yfirleiðsögumanni í Norðurá, og ræddum við hann um ána, gædalífið, græjurnar, fiskana og flugur í Norðurá.

Norðuráin er í grunninn einhenduá, þar sem von er á smálaxi og tveggja ára fiski í bland. Ég nota 9,6 feta sjöu, kannski 12,4 feta sjöu ef vatn er mikið. Ég veiði eingöngu á flotlínu og nota hæfilega langa tauma, ýmist kóníska eða hefðbundið taumaefni. 10-12 feta taumar eru kjörnir, 0,30-0,35 mm, Maxima Ultragreen snemmsumars, ekki spurning.“

Flugur í Norðurá – hvaða fluga færi fyrst undir í júní?

Ég myndi alltaf taka ákvörðunina eftir að ég sæi ána. En ef ég á að velja eina flugu þá yrði þa𠼓 Collie Dog flottúpa, með hárin c.a. helmingi lengri en búkurinn, jafnvel tvöfalt“

Hvernig veiðir þú hana?

„Ég þverkasta henni nánast, ekki alveg en svona nánast, kannski svona 60° kast, ekkert mend. Láta fluguna sveiflast fyrir, maður vill eiginlega að hún rétti úr sér yfir fiskinum og svo strippar maður. Yfirleitt tekur hann fljótlega eftir að þú byrjar að strippa, eða rétt áður en flugan réttir úr sér. Júnímánuður snýst um að leita að fiski, sennilega eru fáar flugur betri í verkið en Collie. Ef maður veit hinsvegar hvar fiskurinn liggur, myndi ég velja aðra flugu.“

Þorsteinn segist veiða mikið á hitch fyrrihluta sumars. „Ef ég veit af fisknum þá hitch-a ég hann. Nýgenginn lax sýnir yfirleitt viðbrögð við gárunni, hvort sem hann tekur fluguna eða ekki. Ef fiskur kemur á eftir hitch-inu, án þess að taka, myndi ég í næsta kasti prófa að hægja á flugunni. Ef það dugar ekki til setti ég tvíkrækju undir. Mér finnst mjög mikilvægt að hún sé létt dressuð.“

Collie Dog er skæð fluga í Norðurá.

Hitch er sterkt vopn í laxinn.

Hvaða flugustærðir eru bestar fyrrihluta sumars?

Að mati Þorsteins virka minni flugur ekkert síður snemmsumars en á haustin, enda notar hann mikið nettar tvíkrækjur í stærðum #12 og #14. „Í júní 2018 kom ég að Hræsvelg í rúmum 40 rúmmetrum og hugsaði, það væri vitleysa að kasta smáflugu í þetta vatn. Samt setti ég litla Collie Dog tvíkrækju í stærð #14 undir. Algjör bilun. Laxinn tók í fyrsta kasti, áttatíu og eitthvað hængur. Ég er alveg á því að laxinn sjái miklu meira en flestir gera sér grein fyrir. En almennt getum við sagt að tví- og þríkrækjur í stærðum #10 – #14 séu málið þegar vatn er gott. Flugur eins og rauður Frances, Silver Sheep, Kolskeggur og Blue Nelly. Þá eru flottúpur í öllum stærðum og gerðum öflugar. Menn nota Sunray mikið og svo eru Skuggi og Valbeinn oft að skila fiskum“.

Eyrin í Norðurá er magnaður veiðistaður.

Hvað með aðrar flugur í Norðurá, hverjar virka vel?

„Það er nú bara þannig að Collie Dog virkar allt tímabilið í Norðurá, í ýmsum útfærslum. Collie tvíkrækja #14 er nauðsynleg! Þegar líður á sumarið fer ég mikið í að nota micro-hitch og enn meira af smáflugum. Eftir 15. júlí þá fer aðeins að hægja á göngum, yfirleitt vatnið að minnka, dettur niður í 7-10 rúmmetra. Ef ég þarf að leita að fiski nota ég Stuðpinnana, grannan Sunray og micro Sunray, eiginlega bara agnarsmáar flottúpur. Ég er mjög hrifinn af gulum og hvítum, það er svona mitt, guli liturinn er ótrúlega sterkur.

Norðurá er þannig að þú ert alltaf með staði þar sem eru um 100 fiskar, en þeir eru erfiðir og ég tala nú ekki um ef það er bjart og lygnt. Fyrsta fluga svona heilt yfir uppi á dal er Silver Sheep þríkrækja #16. Hún þarf ekkert endilega að vera longtail, bara lítil og hugguleg. Svo er það Undertaker í sömu stærð. Hún er geggjuð þegar kemur fram í júlí. Það er kannski rétt að bæta því við hér, að fyrir þá sem eru ekki vanir að nota svona smáflugur og treysta sér ekki að halda fiski á krók nr. 16, þá er þessi fluga fáanleg á samskonar krók nr. 14. Svo er það auðvitað lítill svartur Frances á gullkrók.“

Örgrannar flottúpur eru afar öflugar.

Silver Sheep er fengsæl fluga.

Þorsteinn veiðir mikið á smáflugur í júlí og ágúst, enda þykir honum sú veiðiaðferð gefa best á þeim tíma. „Þegar maður lærir á ána, sama hvaða á það er, þá hættir maður smátt og smátt að túpa. Það er skemmtilegra, en ég geri það líka af virðingu við þann sem kemur á eftir mér.“

Þú ert kannski að nota yfirborðið til þess að staðsetja fisk sem þú gætir ekki staðsett öðruvísi?

„Já einmitt, það bæði virkar vel og er einstaklega skemmtilegt“.

Hvað með Frances kóna?

„Þyngdar flugur í Norðurá eru ekki aðalatriðið en geta oft reddað. Ég nota þær helst ef ég er búinn að reisa fisk nokkrum sinnum en hann neitar að taka. Þá kasta ég stundum micro cone og læt hann reka yfir fiskinn. Mér hefur fundist litlir og þungir kónar virka betur en þeir stærri. Norðurá er aldrei þannig að þú þurfir að fara að skrapa botninn“.

Að sögn Þorsteins er framsetning flugunnar lykilatriði þegar kemur að því að veiða smáflugur. Hann segist beita mörgum aðferðum, veiða hægt og hratt, strippa eða láta reka. Aðalatriðið sé að fiskurinn sjái fluguna fyrst, en ekki veiðimanninn eða flugulínuna. „Ég vil að smáflugur fari frekar rólega yfir fiskinn. Oftast vel ég að strippa frekar en að láta reka. Ég tikka línuna inn, pikka hana stutt og taktfast. Mér finnst góð regla að fylgja taktinum í laginu Stayin’ Alive með Bee Gees. Þegar viðlagið kemur; ah, ah, ah, ah, stayin‘ alive, stayin‘ alive… Það er mjög góður rythmi“.

Víða er fallegt í Norðurárdal.

Hættir þú þá að strippa þegar það kemur stayin‘ alive?

„Nei þú verður bara að setja taktmæli á þetta lag. Ah, ah, ah, ah!. Þetta er ágætt þegar fólk veit ekki hvernig á að strippa þá syng ég þetta fyrir það á bakkanum. En það er auðvitað hægt að nota hvaða lag sem er, svo lengi sem það er í þessum sama takti“.

Þegar komið er fram á haustið, vatnsforðinn orðinn lítill og fiskurinn leggst, þarf oft að hugsa hlutina upp á nýtt. Þorsteinn segir að sé farið nógu gætilega sé yfirleitt hægt að ná í fisk. „Á haustin erum við áfram í sömu smáflugunum“.

En af hverju smáflugunum en ekki stærri flugum eða túpum?

„Sko. Stórar og þungar flugur í Norðurá, þegar áin er kannski 5 rúmmetrar, eru bara alls ekki líklegar til árangurs. Hvorki fyrir þig né þá sem á eftir koma. Það er líklegra að húkka fisk heldur en hann taki. Og ef þú færð fisk, þá færð þú bara einn. Sumir trúa ekki þessari kenningu, en þegar þú ert í leiðsögn allt sumarið þá sérðu alveg breytinguna þegar túpur eru settar í ána. Iðulega deyja hylirnir, í það minnsta ef vatn er af skornum skammti. Ég hef bara séð þetta svo oft og ég hef líka átt sök á þessu sjálfur. Ég skal vera alveg heiðarlegur með þetta“

Þorsteinn er þess fullviss að nettari græjur og smærri flugur skili betri veiði á haustin þegar vatnsstaða er lág. Eflaust eru margir veiðimenn þessu ósammála, en að sögn Þorsteins er það reynslan sem hefur kennt honum. „Ég fæ það ótrúlega oft á tilfinninguna þegar ég fer að biðja fólk um að nota nettar flugur, að það haldi að ég sé á einhvern hátt að hamla því að ná í fisk. Leiðsögumenn reyna ávallt sitt allra besta við að aðstoða veiðimanninn. En um leið erum við líka í samstarfi við alla aðra í ánni. Þegar samvinnan gengur vel þá veiða allir meira, kúnninn veiðir meira, hinir veiða meira, allir“.

Þetta er þá ekki bara eitthvað í nefinu á ykkur leiðsögumönnum?

„Nei, alls ekki sko. Ég get alveg sagt það að ef aðstæður eru þannig að þær bjóði upp á einhverja túpu þá hika ég ekki við að nota hana“.

Stokkhylsbrot er einn af betri hyljum Norðurár.

Þorsteinn segir að veiðin snúist oft á tíðum um að hugsa út fyrir rammann. „Þótt það sé skrýtið að segja það þá er svarið ekki alltaf að skipta bara um flugu. Gæti verið að ég þurfi grennri taum? Stend ég of nálægt fiskinum þegar ég kasta? Styggi ég fiskana þegar ég veð fyrir ofan hylinn? Varpar sólin skugga á vatnsflötinn? Þetta eru allt spurningar sem vert er að spyrja sig. Ég er einfaldlega að benda á að varkárni borgar sig, sérstaklega þegar komið er fram sumarið og fiskur verður varari um sig“.

 Fiskurinn er eðlilega varari um sig þegar hann hefur ekki skjólið.

„Já, það er bara þannig. Með þverrandi vatni minnkar súrefnið og eftir því sem vatnshitinn hækkar fer laxinn í einhverskonar varnarham. Hann eyðir ekki orku í óþarfa. Ef fiskurinn fer í meiri varnarham með einhverri ógætilegri nálgun veiðimannsins, eða bara þegar fuglar fljúga yfir, þá er hann miklu líklegri til að leggjast bara“.

Og hvað er þá til ráða?

„Eins og ég nefndi áðan þá þarf að hugsa út fyrir rammann. Þú getur kannski verið með smáflugu nr. 14 eða 16 og færð hann ekki til að taka í einum hylnum. Svo ferðu á þann næsta, en ákveður að lengja og grenna tauminn en nota sömu flugu. Þá allt í einu tekur hann. Svo er það þetta með krónísku taumana. Margir íslendingar eiga eftir að uppgötva þá“.

Þorsteinn með nýgengna hrygnu úr Norðurá.

En breytist leikurinn eitthvað með haustrigningunum?

„Mér hefur fundist að þegar það kemur rigning í lok ágúst, miðjan ágúst, þá getir þú í rauninni bara hugsað þetta aftur eins og í júní. Þá fer fiskurinn aftur á fleygiferð, hann fær súrefni og er kominn á hreyfingu. Laxinn verður þá minna var um sig. Þá hverfur hann úr sumum hyljum og bunkast upp í öðrum. Þá höldum við aftur á byrjunarreit, Collie, svartur Frances, hitch eða stuttir Sunray-ar“.

Ef þú ættir að draga þetta saman, hver væri niðurstaðan?

Þessi blessaða laxveiði er auðvitað svo dásamleg að þú gætir eflaust spurt einhvern annan og sá hinn sami segði eitthvað allt annað en ég. Það er gerir þetta svo skemmtilegt. En ef veiðimenn taka með sér þær flugur sem ég er búinn að tala um hér, þá eru þeir í raun góðir allt tímabilið. Svo er hitt atriðið, að velja tauma eftir aðstæðum. Ég myndi segja 0,30-0,35 mm í júní en 0,25-0,28 mm eftir það.

 

Veiðiflugur þakka Þorsteini Stefánssyni kærlega fyrir að hafa gefið sér tíma til ræða við okkur um flugur í Norðurá. Vonandi hafa þeir veiðimenn sem hyggjast heimsækja ána í sumar, haft eitthvað gagn eða gaman af lestrinum.