Hvað er hitch?

Hitch eða gárubragð er ein af fjölmörgum aðferðum til að veiða fisk á flugustöng, þá jafnan lax. Upphaf þeirrar aðferðar má rekja aftur til fjórða áratugarins þegar veiðimenn í Protland Creek á Nýfundnalandi hófu að beita svonefndu portlandsbragði. Í raun má gára eða hitcha flestar gerðir flugna, að því gefnu að þær séu hæfilega eðlisléttar til að haldast á floti. Hægt er að bregða portlandsbragði, sem í raun er einfaldur hnútur, yfir haus flugunnar til að hún skauti á vatnsfletinum og myndi þannig v-laga rák eða röst. Það er einmitt rákin sem er svo áhrifarík og egnir fiskinn til töku.

Heimild: fishing.org

 

Portlandsbragð

Hægt er að nota einkrækjur, helst hnýttar á low water króka, tvíkrækjur, flottúpur og jafnvel þríkrækjur til að framkalla gáru. Til þess þarf einfaldlega að bregða portlandsbragði yfir fluguna svo hún skauti. Hér má sjá hvernig hnúturinn er hnýttur við haus flugunnar.

Hitch túpur

Eftir að hitch-túpur komu fram á sjónarsviðið hefur notkun á portlandsbragðinu dvínað, þrátt fyrir að það virki ekki síður en áður. Sennilega eru það þægindin sem hafa leitt veiðimenn af brautinni, en til að veiða gárutúpu þarf ekki að bregða hnýti yfir haus flugunnar. Þá er mun auðveldara að halda slíkri túpu á floti enda túpuplastið mjög eðlislétt.

Hvernig á að veiða með gáru?

Að egna fyrir lax með gárutúpu eða portlandsbragðinu er tiltölulega einfalt og getur hver sem er tileinkað sér aðferðina. Veiðimenn skulu varast að hafa tauminn of langan því þá getur reynst erfitt að halda flugunni í vatnsyfirborðinu. Að sama skapi er ekki ráðlegt að hafa tauminn of stuttan þar sem flugulínan getur styggt fiskinn. Ávallt þarf að hafa lend taumsins í huga en góð þumalputtaregla er að hafa hann u.þ.b. jafn langan stönginni þegar hitch-að er. Þá þarf taumurinn að vera hæfilega stífur til að auðveldara sé að stjórna flugunni.

Þegar taumurinn er kominn framan á flotlínuna er flugan hnýtt á endann og því næst er portlandsbragðinu brugðið aftan við haus flugunnar. Ef nota á hitch-túpu er taumurinn þræddur inn á hlið túpunnar og þaðan niður túpuplastið þar sem krókurinn er festur. Best er að nota fremur létta króka enda geta þungir krókar sökkt flugunni, það á sérstaklega við þegar notað er tiltölulega smátt hitch. Í hefðbundið hitch er gott að nota Kamasan B990 krókinn númer 14, en hann er fisléttur, beittur og sterkur. Fyrir micro hitch eru VMC krókar hentugir, í stærðum 14-18. Krókagerðin skiptir minna mái í stærri flottúpur, s.s. tommu langan Sunray.

Hvernig á að bera sig að?

Veiðiaðferðin sem slík er fremur einföld en til að flugan gári þarf að vera nokkur straumur. Best er að kasta flugunni c.a. 45° á hylinn og hafa tiltölulega strekkt á línu og taumi. Stönginni er sömuleiðis hallað upp á við u.þ.b. 45° frá vatnsyfirborðinu, þetta er þó ekki algilt enda geta aðstæður verið misjafnar, straumur mismikill og veðuraðstæður ólíkar. Þá er misjafnt hve mikla „hjálp“ flugan þarf til að haldast á floti. Ef straumur er nægjanlegur er áhrifaríkast að láta fluguna skauta á árhraða yfir fiskinn. Þar sem rennsli er hægara getur verið gott að draga línuna hægt inn til að flugan haldist í vatnsyfirborðinu. Varast skal að draga fluguna of hratt því ef vatn freyðir fyrir framan hana er ólíklegt að fiskur taki. Falleg v-laga rák er því lykilinn að velgengni.

Hér má sjá hvernig hitch túpa virkar. Heimild: Nils F. Jørgensen

Hvað á að gera þegar lax tekur hitch?

Þegar lax tekur hitch er í raun best að gera ekki neitt. Fyrir marga veiðimenn getur það reynst býsna erfitt, en til að árangur náist er gott að hafa það ráð í huga. Lax sem kemur upp til að taka fluguna verður að hafa tíma til að snú sér áður en stönginni er lyft. Lax mun alltaf leita til baka þá leið sem hann kom. Ef brugðið er við laxinum, þ.e. stönginni lyft upp of snemma, eru allar líkur á að veiðimaður rífi fluguna af laxinum svo hann festist ekki á króknum. Því er betra að láta laxinn sjá um að festa sig sjálfan og hefja baráttuna þegar fiskurinn hefur strekkt á línunni, ekki fyrr. Sem sagt alls ekki bregða við laxi um leið og hann tekur, betra er að gefa línu eftir en að strekkja á henni.

Hvaða gerðir eru fáanlegar?

Almennt er talað um 2 gerðir af hitchi, þ.e. hefðbundið hitch og micro hitch. Þar með er þó ekki öll sagan sögð því flestar flottúpur, 1“ – 2“ langar, eru einnig með gati á hliðinni svo þær er unnt að hitcha. Eins og áður var rakið er sömuleiðis hægt að nota hefðbundnar flugur til að gára með, en þá er portlandsbragði brugðið aftan við haus flugunnar. Hér verður þó sjónum beint að eiginlegum gárútúpum eða hitchi.

Micro Hitch er smæsta form gárutúpu, yfirleitt hnýtt á afar grannt túpuplast, gjarnan 1-1,5 cm (½“) að lengd. Micro hitch er afar skætt vopn og gengur allt tímabilið, frá vori fram á haust. Hefðbundið hitch er jafnan hnýtt á lengra og sverara túpuplast en micro hitch, jafnan 1,5-2 cm (3/4“) að lengd. Slíkar gárutúpur virka vel í nýgenginn fisk, þó vissulega megi bregða þeim fyrir lax sem legið hefur í lengri tíma í ánni. Flottúpur í stærri kantinum má margar hverjar hitcha, s.s. sunray í öllum stærðum. Stærra hitch virkar yfirleitt best í vatnsmeiri ám, gjarnan fyrrihluta sumars. Þó getur hitch-uð flottúpa virkað stórvel á fisk sem ekki lítur við öðru seint á haustin.

Haugur sem hefðbundin hitch túpa. 

Collie Dog micro hitch.

Coburn Special á léttri einkrækju.

Hvítur Sunray Shadow sem nota má sem hitch.

Hvenær og hvar ætti að nota gárutúpur?

Það sem gerir laxveiði svo spennandi er að veiðimaður getur aldrei gengið að nokkru sem vísu. Fluga sem virkar í dag virkar ekki endilega á morgun. Hitch má nota hvar sem lax er að finna, svo lengi sem að þar sé nægjanlegur straumur til að flugan gári. Gárutúpur virka betur í tæru vatni en lituðu og oftast betur þegar vatnshiti er hæfilegur. Gjarnan er talað um að vatnshiti á bilinu 10-14°c sé kjörhitastig til laxveiða. Þau vísindi eru þó fjarri því að vera algild.

Þó engar reglur séu meitlaðar í stein eru tímabil þar sem sumar gárutúpur virka betur en aðrar. Snemmsumars þegar fiskur er að ganga og ár tiltölulega vatnsmiklar virka stærri gárutúpur oftast vel. Með þeim er gott að leita af fiski enda auðveldara að staðsetja fisk sem kemur upp á eftir flugu en þann sem liggur djúpt. Þegar göngur ná hámarki og eins þegar vatn fer minnkandi verður micro hitch sterkasta vopnið af gárutúpunum. Í raun er micro hitch jafnsterkasta flugan, en veiðimenn eru gjarnan tregir við að reyna svo smáar flugur. Fyrrihluta sumars eru stærri hitch túpur því skæðar, en máttur þeirra minnkar alla jafna eftir því sem líður á tímabilið. Micro hitchið er þó gjaldgengt yfir allt laxveiðitímabilið, jafnvel í miklum kulda og vindi.