Það hefur lengi vantað á markaðinn vandaða heila tvíhendulínu sem er án samskeyta skothauss og rennilínu. Með samstarfi Nextcast og Veiðiflugna hefur okkur tekist að framleiða frábæra tvíhendulínu sem hönnuð er fyrir veiðar á Íslandi.
Línan ristir hátt í vatni og er því m.a. ákaflega auðvelt að kasta. Rennilínan er mismunandi milli línuþyngda, enda mikilvægt að hún sé hæfilega þykk svo línan renni auðveldlega í gegnum lykkjur stangarinnar. Zone Iceland er auðvelt að meðhöndla vegna mjúkrar kápunnar og hana er þægilegt að strippa. Þó svo að hægt sé að draga haus línunnar inn fyrir lykkjur stangarinnar, vinnur línan best ef skothausinn er allur fyrir framan stangartoppinn.
Lengd línunnar tekur mið af stærð íslenskra ársvæða og er að okkar mati ákjósanleg í hverri línuþyngd fyrir sig. Tvíhendulínan fer ákaflega vel með löngum frammjókkandi taumum og leggst hún mjúklega á vatnsflötinn. Hún hentar jafnt byrjendum sem þaulreyndum veiðimönnum. Línan ber bæði léttar og þungar flugur og tekst vel á við fjölbreyttar veðuraðstæður. Ekki er mælt með að nota sökkenda á þessa línu, enda fyrst og fremst hönnuð sem flotlína. Þau sem kjósa að nota sökkenda í einhverju mæli ættu að kynna sér Nextcast Zone 2D línuna eða Core16.
Hér er á ferðinni einn allra besta heila tvíhendulínan sem komið hefur fram á sjónarsviðið. Þetta er lína fyrir þau sem hafa unun að notkun tvíhenda og nota flotlínu í ríkum mæli.