Guideline LPX Coastal Einhendupakki 9,3′ #7

> Frábær í saltvatnsveiði eða sjóbirting
> Kastar stórum flugum við krefjandi aðstæður
> Í pakkanum er Halo hjól og Coastal Evolve flugulína
> Vegur 94 gr. – línuþyngd 17-19 gr.

122.900kr.

Vinsamlega veldu inndrátt fluguhjólsins:

Ekki til á lager

  • 30 daga skilaréttur
  • Frí heimsending á pöntunum yfir 12.000 kr.
  • Fjölmargir greiðslumöguleikar

Öflugur fluguveiðipakki fyrir þau sem kjósa mikið afl og hraða. Stangarpakkinn inniheldur LPX Coastal flugustöng, Halo fluguveiðihjól, undirlínu og Coastal Fast Intermediate línu eða aðra sambærilega línu. Vinsamlegast takið fram óskir um annað línuval í skilaboðareitnum í körfu.

LPX Coastal eru framleiddar úr nýjum efnum þar sem höfuðáhersla er lögð á umhverfisvernd. Stangirnar eru hannaðar til að kasta straumflugum við erfiðar aðstæður. Á Íslandi nýtast þær við krefjandi aðstæður til veiða á staðbundnum urriða og sjóbirtingi. Með nýrri stangartækni nær Guideline nú að bjóða lengri stangir í slíka veiði með sömu tilfinningu og þær styttri búa yfir.

Halo fluguveiðihjólið sem fylgir með í stangarpakkanum er framleitt er úr renndu áli. Hjólið er tiltölulega eðlislétt og er algjörlega lokað svo ekki er hætta á að línan festist á milli hjólsins og spólunnar. Halo er með vatnsþéttu og öflugu diskabremsukerfi sem er svo gott sem viðhaldsfrítt. Hjólið er breiðkjarna (e. full frame) sem gerir veiðimönnum kleift að ná slaka inn hratt, auk þess sem hönnunin dregur úr líkum á línuminni.

Hjólið kemur uppsett með undirlínu og Coastal Evolve flugulínu. Hún er hæg/hraðsökkvandi (fast intermediate) og sekkur um 3,8 cm á hverja sekúndu. Línan er uppfærð útgáfa af hinni geysivinsælu Coastal línu sem hefur verið ein mest selda intermediate línan á Íslandi síðustu ár. Veiðimenn sem stunda Veiðivötn og Þingvallavatn hafa margir hverjir kosið Costal umfram aðrar línur vegna frábærra eiginleika hennar.

Línan er framþung með 9,8 metra haus svo henni er auðvelt að kasta á lengra eða styttra færi. Hún ber flestar flugustærðir, allt frá kúluhausum upp í þungar túpur, og nýtist sérlega vel í miklum vindi. Helsta breytingin frá eldri línunni er sú að hin nýja lína er með þynnri runninglínu sem veitir minna viðnám í lykkjum stangarinnar. Þyngd línanna er áþekk en afl línunnar er heldur meira en áður þar sem þyngdin er heldur framar. Litaskilin eru nú skarpari en áður sem gerir línustjórnun og hleðslu stangarinnar auðveldari. Kápa línunnar er mjög álagsþolin og er hún framleidd þannig að minni hennar er ekkert. Það þýðir að línan kuðlast minna en ella, en það getur oft verið hvimleitt vandamál með intermediate línur. Línan er með aðeins um 5% teygju sem getur oft komið sér vel þegar tökur eru grannar.

Ítarupplýsingar um flugustöngina

Með nýjum efnasamsetningum og koltrefjauppsetningu er toppur stanganna hafður einstaklega léttur. Slík uppbygging gerir það að verkum að stöngin getur verið lengri og um leið viðhaldið mikilli hröðun í gegnum kastið. Stangardúkurinn er eðlisléttur sem dregur úr þreytu í úlnliðum og er tilfinningin eins og þegar 9 feta stöng er kastað. Munurinn er þó sá að unnt er að kasta lengra með þessum nýju stöngum. Þetta er meginástæða þess að LPX Coastal eru 9,3 fet að lengd í línuþyngdum 5-7. Aukin lengd veitir betri línustjórnun í fluguköstunum, sérstaklega þegar vaðið er. Stangirnar verða ekki fyrir meiri áhrifum sökum vinds en hefðbundnar 9 feta stangir. Það er hinsvegar meira mál að þvinga stangir í gegnum vindinn þegar þær ná 10 fetum að lengd og verða framþyngri.

LPX Coastal stangarlínan er afrakstur þriggja ára rannsókna við að finna lausn sem sameinar afkastagetu og „græna tækni“ í öllum hlutum stanganna. C.A.P tæknin er með flóknu áslægu mynstri, CAP (e. Complex Axial Pattern) sem parað er við einátta koltrefjauppbyggingu. Með tækninni eru koltrefjalög lögð upp í mismunandi horn hvert á annað til að hámarka styrk og stöðugleika í allar áttir. Í einátta óofnu koltrefjamynstri liggja allar trefjarnar í einni samsíða stefnu, sem tryggir hámarksstyrk stangardúksins. Þetta skilar sér í stórkostlegri frammistöðu og styrk en um leið ótrúlega lágri þyngd stanganna.