Bullet 2.0 Flotlína

Þessi nýja frá Guideline tekur við af hinni geysivinsælu Bullet Evolve. Línan er frábær til alhliða nota og er með nægjanlega öflugan skothaus kasta þungum flugum. Bullet 2.0 hentar einkar vel í vindi, bæði í lax- og silungsveiði.

16.900kr.

  • 30 daga skilaréttur
  • Frí heimsending á pöntunum yfir 12.000 kr.
  • Fjölmargir greiðslumöguleikar

Bullet 2.0 nýtist í hverskonar veiði og auðveldar veiðimönnum lífið í krefjandi aðstæðum. Línan stendur svo sannarlega undir nafni enda skýtur hún stórum flugum og vinnur vel móti vindi. Jafnvægi línunnar er afar gott og þrátt fyrir tiltölulega stuttan haus fatast henni ekki flugið. Hauslengdin er 9,25 metrar en uppbygging línunnar gerir hana einkar fjölhæfa auk þess sem hún fyrirgefur kastmistök. Bullet línunni má kasta langt án mikillar fyrirhafnar og hentar vel í yfirhandarköst, en ekki síður veltiköst.

Heildarlengd línunnar er 30 metrar, þar af er hausinn 9,25 metrar sem þýðir að línan nýtur sín best í miðlungslöng köst. Framhlutinn (e. front taper) er 5,5 metrar að lengd og veltir við stórum sem smáum flugum. Þyngd línunnar liggur aftarlega en hún grennist aftur á 1,8 metra kafla (e. back taper) sem gerir hana stöðugri á lengra færi. Þar fyrir aftan er línan mjókkuð aftur á þriggja metra kafla áður en rennilínan tekur við. Þetta er gert til að þrengja línubuginn og auðvelda línustjórnunina. Appelsínugulur litur línunnar nær frá rennilínu inn á aftari hluta skothaussins og auðveldar veiðimanni lengdarstjórnun og hleðslu stangarinnar. Bullet 2.0 er með grönnum lykkjum á báðum endum.

Línan nýtur sín hvað best þegar henni er aðeins falskastað einu sinni, kjörin fyrir þá sem vilja að flugan sé meira í vatninu en loftinu. Bullet 2.0 má nota bæði á einhendur og switch-stangir. Fyrir flestar einhendur borgar sig að taka það línunúmer sem stöngin segir til um. Undantekning kann að vera ef stöngin er mjög hröð. Fyrir switch stangir er ráðlegt að taka einu (til tveimur) línunúmerum hærra en stöngin er gefin upp fyrir. Sem dæmi skal taka línu #8 (eða #9) fyrir switch-stangir í línuþyngd #7.