Líflegar opnanir

Björn Kr. Rúnarsson með einn af fyrstu löxum sumarsins úr Vatnsdalsá 2019, spikfeita hrygnu úr Hnausastreng.

 

Nú opnar hver laxveiðiáin á fætur annarri og þrátt fyrir misgóðan vatnsbúskap fer veiðin nokkuð vel af stað. Nú í morgun opnaði Reykvíkingur ársins, Helga Steffnsen, Elliðaárnar og landaði hún fyrsta laxi sumarsins, 7 punda nýrunnum í Sjávarfossi. Aðrir veiðimenn tóku síðan við og lönduðu m.a. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sitthvorum tveggja ára laxinum. Fleiri laxar hafa veiðst í dag og eru nú að minnsta kosti 8 laxar komnir á land. Þá fengum við fregnir af því að sannkallaður stórlax (um og yfir 100 cm) hafi tapast í Teljarastreng á fyrstu vakt. Það verður að teljast tíðindi, enda slíkir fiskar afar sjaldséðir í Elliðaánum.

Laxá í Aðaldal, Ytri Rangá og Víðidalsá opnuðu sömuleiðis allar í morgun. Morgunvaktin í Aðaldalnum skilaði þremur löxum og fleiri töpuðust. Allir fiskarnir voru tveggja ára stórlaxar sem koma vel haldnir úr sjó. Þá fengum við fregnir úr Víðidalsá en þar var fjórum löxum landað á morgunvaktinni auk þess sem nokkrir töpuðust, þ.á.m. einn alvöru Víðidalsárhængur sem sleit sig lausan. Þessi byrjun er framar vonum enda hefur vatnsstaða árinnar verið lág á undanförnum vikum. Vonandi hleypa rigningar nú enn frekara lífi í veiðina. Fréttir úr Ytri Rangá lofa góðu en þar var níu löxum landað á fyrstu vakt. Áin er fremur lág í vatni, um feti lægri en á sama tíma í fyrra. Fyrsti fiskurinn úr Djúpósi koma á land rétt í þessu og eru staðfestir 5 laxar á seinni vaktinni þegar þetta er skrifað. Veiðimenn sem þar eru staddir hafa séð fiska vera að rúlla inn nú undir kvöld sem veit vonandi á góða daga framundan.

Fyrsti laxinn úr Ellliðaánum 2019. Mynd fengin frá SVFR.
Mynd úr Vatnssdalsá nú í kvöld

Laxá á Ásum fór rólega af stað fyrstu dagana eftir opnun þrátt fyrir að vera undanskilin vatnsleysi. Í morgun urðu menn varir við fyrstu alvöru gönguna en sett var  í 10 laxa á morgunvaktinni, þó aðeins þrír þeirra hafi náðst á land. Seinnipartinn í dag opnaði Vatnsdalsá svo fyrir veiðimönnum. Tíðindin þaðan eru mjög svo jákvæð, fiskur nokkuð víða og góð veiði. Þegar við heyrðum í veiðimönnum nú undir kvöld var strax búið að landa 5 löxum. Í Hnausastreng var mikið líf en úr hylnum var búið að landa þremur löxum auk þess sem nokkrir sluppu. Vatnsstaða árinnar er lág en að sögn langt frá því að vera komin að þolmörkum. Ekki verður annað sagt en að laxveiðin fari vel af stað norðanlands og sunnan þó rigninguna vanti sárlega.