Scott hefur nú sett á markað nýja stangarlínu sem nefnist Centric, sem tekur við af hinum vinsælu Radian stöngum. Grunnhugmyndin með hönnun þeirra var að skapa hraða stöng sem þó veitir notandanum mikla tilfinningu, nokkuð sem Scott kallar „fast and feel“. Stangirnar eru einstaklega stöðugar og með ReAct-tækninni er titringur lágmarkaður með því að flýta fyrir endurheimt grafítsins. Scott Centric stangirnar búa að miklu afli en þrátt fyrir það veita þær veiðimanninum mikla næmni og tilfinningu fyrir bráðinni.
Centric eru með sanni skilvirkustu stangir sem Scott hefur nokkru sinni framleitt. Með þeim næst fram mikill línuhraði þar sem flatur og stöðugur línubugur skilar sér með lágmarks fyrirhöfn, á lengra sem skemmra færi. Stangirnar henta veiðimönnum á öllum kunnáttustigum þar sem þær eru léttar í hönd, hárnákvæmar og skemmtilegar við veiðar í hverskonar aðstæðum. Stangirnar henta í hefðbundin yfirhandarköst, en þeim má einnig veltikasta og er línustjórnunin framúrskarandi. Hæfni þeirra til að stjórna lögun línubugsins og línuhraða í hvaða fjarlægð sem er veitir veiðimönnum fjölbreytta notkunarmöguleika.
Hágæða hráefni og lífstíðarábyrgð
Við framleiðslu Scott Centric flugustanganna er notað hágæða grafít með fjölkerfa uppbyggingu auk nýs efnakerfis sem eykur trefjaþéttleika og dregur úr þyngd. Ný kynslóð ARC-styrkingar (e. Advance Reinforced Carbon) bætir stefnustöðugleika og eykur snúningsátak og styrk stangarhlutanna. Scott notast við nýjan búnað sem gerir fyrirtækinu kleift að stjórna staðsetningu og þéttleika trefjanna með mikilli nákvæmni. Þar að auki hafa nýir íhlutir verið hannaðir frá grunni til að auka endingu og bæta ásýnd stanganna.
Scott Centric flugustangirnar eru handsmíðaðar í Bandaríkjunum og þeim fylgir lífstíðarábyrgð líkt og öllum öðrum stöngum sem fyrirtækið framleiðir.
Á traustum grunni
Scott hefur í hartnær 50 ár hannað og framleitt fyrsta flokks flugustangir. Fyrirtækið er eitt það rómaðasta á bandarískum markaði og nýtur nýjasta afurðin, Centric flugustöngin, fádæma vinsælda um allan heim. Gagnrýnendur eru á einu máli um ágæti þeirra og verður spennandi að sjá hvernig íslenskir veiðimenn taka þessum glæsilegu stöngum.
Scott Centric flugustangirnar státa af nýrri tækni sem gerir smíði þeirra enn nákvæmari en áður og hlekkjar koltrefjarnar þétt saman í einskonar fylki. Vegna þessara tæknibreytinga eru stangirnar verulega léttar og mun skilvirkari. Þær lágmarka þreytu og áreynslu við fluguköstin, en að auki verður nákvæmni kastanna meiri og notagildi stanganna fjölbreyttara.
Fyrir meira en 15 árum síðan kynnti Scott veiðiheiminn fyrir ofurléttum einátta styrkingum úr koltrefjum. Hin háþróaða ARC-styrking (e. Advance Reinforced Carbon) bætir stefnustöðugleika og eykur snúningsátak og -styrk stangarhlutanna. Ný kynslóð ARC er 35% léttari en áður og setur ný viðmið í hönnun á ofurléttum fjölkerfa flugustöngum.
ReAct-tæknin sameinar X-Core hönnunina frá Scott og þá tækni sem fyrirtækið notar til að mjókka fram stangarhlutana. Í raun er um byltingu að ræða í hönnun á hröðum (e. Fast Action) flugustöngum. Þegar flugulínu er kastað myndast bylgjur í flugustönginni sem valda titringi, jafnvel eftir að kastið hefur verið framkvæmt. Þessi titringur dregur úr mögulegri kastlengd, nákvæmni og stjórn stangarinnar. Margir stangarframleiðendur vestanhafs gera stangir sínar einfaldlega enn stífari til að minnka þennan titring, en með því er verulega dregið úr jákvæðri upplifun veiðimannsins og tilfinningu fyrir fiski. ReAct-tæknin vinnur gegn titringi með því að flýta fyrir endurheimt stangardúksins án þess að stöngin verði stífari. Þetta þýðir að tilfinningu veiðimannsins er ekki fórnað með hraðari stöng sem hlýtur að teljast afar jákvætt í öllum skilningi. Centric stangirnar eru því eins og Scott kallar þær „Fast and Feel“.
Scott var brautryðjandi í notkun á fjölkerfa uppbyggingu koltrefjastanga. Með því að breyta togstuðli eftir lengd stanganna er unnt að stjórna nákvæmlega stífleika og endurheimt (e. Recovery Speed) stangardúksins. Niðurstaðan er sú að stangirnar hlaðast og afhlaðast hnökralaust.
Scott notar nýtt FiberFuse plastefnakerfi (e. Resin System) til að auka styrk stanganna. Það efni býr til tengingar á milli grafíttrefja sem eru um 20% sterkari en hefðbundin epoxy-efni.
Aukin tilfinning, ótrúlegur stöðugleiki og óviðjafnanleg frammistaða. X-Core sameinar leiðandi tækni í samsetningu flugustanga og háþróaða hönnun. Þvermál er í réttu hlutfalli við stífleika og styrk, og með X-Core-tækninni (e. Expanded Core) er tilfinningu og stöðugleika skilað óaðfinnanlega beint til notandans. Scott framleiðir Centric stangirnar úr þunnveggja stangardúk sem ásamt ARC-tækninni skilar sér í stífleika með tilfinningu og stöðugleika með næmni. Þetta er í raun svar Scott við stöngum sem framleiddar eru með þykkveggja stangardúk og skila stífleika á kostnað tilfinningarinnar.
Scott flugustangir eru ólíkar flestum öðrum stöngum í útliti. Centric stangirnar eru með því sem Scott kallar „Natural Finish“ sem gerir stangirnar léttari, álagsþolnari og endingarbetri. Flestar aðrar stangir eru pússaðar niður, en við það tapast sterkar ytri trefjar svo stangirnar verða brothættari en ella. Þetta er einkum gert til að kalla fram „fallegra“ útlit. Scott fer þveröfuga leið og leyfir náttúrulegri áferð koltrefjanna að njóta sín. Þannig nær fyrirtækið ákveðinni sérstöðu og nýtir um leið endingu grafítsins til hins ýtrasta.
Flest hjólasæti eru framleidd með gljáandi álhúðun sem er svo þunn að hún þolir lítið hnjask. Rispur á slíkri húðun geta afhjúpað álið fyrir innan sem leiðir til aukins slits og mögulegrar tæringar. Í hjólasæti Centric stanganna notar Scott tækni sem þeir kalla Mil-Spec III. Með þeirri tækni nær húðunin í gegnum yfirborð álsins sem skapar endingarbestu og tæringarþolnustu áferð sem völ er á.
Scott notar aðeins bestu fáanlegu íhluti til framleiðslu á Centric stöngunum. Lykkjur stanganna voru valdar út frá styrk þeirra, léttleika og tæringaþoli. Rammar þeirra eru gerðir úr hreinu titanium, efni sem er 65% léttara en samsvarandi ryðfrítt stál.
Í Centric stangirnar eru efri lykkjur stanganna frá bandaríska framleiðandanum Snake Brand. Lögun þeirra er í samræmi við stangardúkinn og eru þær með besta tæringarþol sem völ er á. Lykkjurnar eru með silkimjúkri áferð til að tryggja að línan renni auðveldlega í gegnum þær.
Ótvíræðir kostir Scott Centric
- Kastar jafn langt ef ekki lengra en sambærilegar stangir með minna afli.
- Býður upp á frábæra línustjórnun.
- Hentar bæði í veltiköst og yfirhandarköst
- Gerir línustjórnun á vatni auðveldari, s.s. þegar línunni er vippað (menda).
- Betri línustjórnun þegar unnið er með langa línu.
- Bætt framsetning með löngum taumum.