Himnarnir opnast

Horft niður Hvítstaðahylji í Langá í morgunsárið.

 

Eftir eitt mesta þurrkasumar fyrr og síðar er nú loksins farið að rigna. Laxeiðin hefur gengið afleitlega á vesturhelmingi landsins það sem af er, en nú er spurning hvort það rætist úr veiði. Í það minnsta ætti að koma betur í ljós hvað raunverulega er af fiski í ánum.

Við heyrðum í veiðimönnum sem eru við veiðar í Norðurá. Þar hefur ástandið kollvarpast á örskömmum tíma, en áin fór á síðasta sólahring úr tæpum 5 m3/s í um 60 m3/s. Frá júníbyrjun hefur Norðurá vart komist upp fyrir 3 rúmmetra svo breytingin er gríðarleg. Áin er nú farin að sjatna og verður forvitnilegt að fylgjast með aflabrögðum næstu daga. Hver veit nema heildarveiði Norðurár muni tvöfaldast á þeim tíma sem eftir lifir sumars. Heildarveiðin stendur nú í 370 löxum.

Laxfoss í Norðurá nú í morgun. 
Bryggjur og Laxfoss um miðjan júní.

Veiðimenn sem hófu veiðar í Laxá í Dölum í gær komu að ánni mjög lítilli. Sömu sögu er að segja þar, miklir vatnavextir með tilheyrandi slýreki og lit. Strax í morgun fengum við fregnir af lönduðum löxum, þeirra á meðal lúsugir fiskar. Það veit sannarlega á gott með lokasprettinn i Dölunum, en nú er um mánuður eftir af tímabilinu. Laxá í Dölum er dæmigerð síðsumarsá og á því mikið inni. Úr Haukadalsá fengum við sambærileg tíðindi, en rennsli árinnar er skv. mælum komið í 11 m3/s.

 

Langá á Mýrum óx mikið í nótt og er hún samkvæmt veiðimönnum í algjöru gullvatni. Áin hefur eins og aðrar ár á vesturlandi liðið fyrir vatnsskort í allt sumar. Gera má ráð fyrir því að aukið rennsli hleypi lífi í laxinn, en fjöldi laxa er þar mun meiri en aflatölur gefa til kynna.

Veiðimenn sem eiga daga í Stóru Laxá í Hreppum gætu átt vona á góðri veiði þegar fiskur tekur að ganga upp úr Hvítá. Stóra Laxá sem ekki hefur verið svipur hjá sjón þetta sumarið hefur vaxið mikið síðastlitiðinn sólarhring og er útlit fyrir frekari rigningu á svæðinu. Í morgun stóð rennsli árinnar í tæpum 9 m3/s. Líklegt má teljast að veiðin færist í aukana ef rennslið nær um 15 m3/s, en jafnan er talað um það vatnsmagn sem kjörvatn Stóru Laxár.

Mynd af Myrkhyl í Norðurá þennan morgunin. Áin stendur í 54 m3/s.

 

Ár á borð við Laxá í Kjós, Grímsá, Gljúfurá, Þverá, Haffjarðará og Straumfjarðará sem allar hafa verið vatnslitlar þetta veiðisumarið fá nú vonandi góða innspýtingu. Fróðlegt verður að fylgjast með aflabrögðum þessa vikuna í kjölfar fyrstu alvöru rigninga sumarsins. Ef líkum lætur mun laxveiðin taka mikinn kipp næstu sólarhringa.